146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því sérstaklega að við höfum náð þeim áfanga, sem ekki fyrir svo löngu var alls ekki sjálfsagður, að lyfta með öllu höftum af íslenskum almenningi, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Það er ekki lengra síðan en fyrir kosningarnar 2013 að harkalega var tekist á um hvaða valkostum við stæðum frammi fyrir. Það er sömuleiðis þannig að við hvert skref sem við höfum stigið á undanförnum árum höfum við séð sterka hagsmunaaðila beita öllu afli til að grafa undan áætlunum íslenskra stjórnvalda til að verja íslenskan almenning og koma aftur á eðlilegum reglum um fjármagnsflæði til og frá landinu.

Leitað hefur verið til alþjóðlegra stofnana. Farið hefur verið til dómstóla. Það hefur margoft verið herjað á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sérfræðingar sendir út af örkinni til að skrifa greinar í virt alþjóðleg dagblöð, allt til þess að grafa undan Alþingi í þeirri fyrirætlan, sem við höfum hér fylgt, að losa Ísland að nýju undan gjaldeyrishöftunum. Kannski má segja að það hafi ekki verið skrýtið vegna þess að hinir fjárhagslegu hagsmunir sem voru undir voru gríðarlegir.

En við erum komin á þennan stað eftir að hafa fylgt markvissri góðri áætlun sem var endurskoðuð og síðast sett fram árið 2015, þar sem við brutum vandann niður í þrjá ólíka flokka. Í þeim efnum var sömuleiðis fylgt góðri ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrsti flokkurinn voru slitabú fallinna fjármálafyrirtækja og við þekkjum hvernig við tókumst á við þann vanda. Við sögðum: Það verður ekki þannig að eignir fallinna fjármálafyrirtækja geti leitað til kröfuhafa með þeim hætti að það valdi þrýstingi á gengi íslensku krónunnar. Og við fundum frábæra lausn á þeim vanda.

Næsti flokkur var sá sem hér hefur verið rætt um í dag, aflandskrónurnar. Við höfum haldið fjöldann allan af útboðum. Ég vil nefna það hér af því að það er oft talað um útboðið sem haldið var í fyrra. Það útboð kom í kjölfarið á um 20 öðrum útboðum sem höfðu átt sér stað á fyrri stigum málsins. Það var bara enn eitt útboðið þar sem við vorum að reyna að létta af þessari snjóhengju, þessum skafli úr snjóhengjunni. Það hefur gengið vel.

Nú horfir til þess að það séu rétt um 100 milljarðar, mögulega, sem sitja eftir af þeim vanda sem fyrir ekki svo löngu var margföld sú fjárhæð. Svo er það þriðji flokkur snjóhengjunnar eða þess þrýstings sem hefur beinst að íslensku krónunni, það er bara einfaldlega innlendi markaðurinn sem við erum hér í dag að sjá lyftast. Það er sömuleiðis í samræmi við þá áætlun sem við höfum unnið að, í samræmi við fyrri skref sem við kynntum til sögunnar í fyrra og tóku gildi núna síðast um áramótin, þ.e. þau skref sem þar voru lögfest. Við sögðum í fyrra, í því frumvarpi sem þá var lagt fram — í umræðu um það mál — að gert væri ráð fyrir því að stjórnvöld myndu snemma á næsta ári, þ.e. á árinu 2017, endurmeta aðstæður til hækkunar fjárhæðarmarka gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga samkvæmt 1. og 2. gr. frumvarpsins ásamt áframhaldandi undirbúningi að fullri losun fjármagnshafta. Lögð var sú skylda á Seðlabankann að endurskoða fjárhæðarmörkin fyrir 1. júlí 2017. Þarna komu fram alveg skýr áform um að við myndum strax upp úr áramótum halda þeirri vinnu áfram með þau sömu markmið og við höfðum þá þegar kynnt.

Mér finnst það skjóta skökku við þegar menn koma hingað upp og segja að útboðið, sem haldið var um mitt ár í fyrra, hafi ekki verið vel heppnað. Staðreyndin er sú að við fengum þátttöku í því útboði sem var langt umfram það sem tekist hafði að fá fram í fyrri útboðum; langt, langt, langt umfram það. Veruleg fjárhæð sem þá losnaði, rétt um 70 milljarðar, ef ég man rétt, sem við náðum að losa í útboðinu. Vissulega stóð eftir há fjárhæð en engu að síður vel heppnað útboð sem var undanfari þess að við gátum hafið afnámsferli á innlenda aðila.

Einnig má segja, gagnvart þeim sem stilla þessu þannig upp að við höfum tapað einhverju með því að ganga ekki lengra á þeim tímapunkti, að hægt sé að horfa á þetta á hinn veginn og segja: Það var eins gott að við héldum útboð í fyrra, ekki satt, þegar gengi krónunnar var eins hátt og það er nú orðið í sögulegu samhengi. Þetta er auðvitað allt saman einhver eftiráspeki, að standa hér í dag og segja: Ja, það var náttúrlega augljóst í júní 2016 að gengi krónunnar var að fara að styrkjast. En þetta er ekki svona. Þeir sem láta svona ættu að vita mun betur.

Aðalatriði málsins er að vilji menn horfa á það hverjir eru að hagnast á þeim viðskiptum sem eru að eiga sér stað við Seðlabankann í þessari umferð, þá ættu menn bara að spyrja sig hvort Seðlabankinn sjálfur sé ekki örugglega að hagnast. Og svarið við því er: Jú, Seðlabankinn kemst mjög vel frá þessum viðskiptum og mun fá til sín bókhaldslegan hagnað, umtalsverðan, þegar þau viðskipti hafa verið gerð upp.

Hér er hins vegar langstærsta atriðið að okkur er að takast að aflétta höftum sem margur hefði sagt að gæti tekið áratug, jafnvel lengur, að lyfta af efnahagslífinu. Við höfum reynslu af því frá fyrri tíð að höft lifðu um áratugaskeið, en okkur Íslendingum hefur tekist þetta vel, þetta hratt, að vinda ofan af þeirri þröngu stöðu sem við rötuðum í árin 2008 og 2009, að á árinu 2017 er komið að því.

Það er annað atriði sem snertir þróunina frá útboðinu í fyrra. Hvers vegna er það sem Seðlabankinn getur átt viðskipti á lægra gengi íslensku krónunnar? Ja, það er vegna þess að vel hefur gengið á Íslandi. Það er vegna þess að þróunin, eftir að útboðið fór fram í fyrra, hefur verið jákvæð fyrir okkur Íslendinga, fyrir heimilin í landinu. Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst í millitíðinni, svo um munar. Svo mikið reyndar að útflutningsgreinarnar eru farnar að kvarta. Það er ákveðið viðvörunarmerki. En meginforsendan er sem sagt sú að okkur hefur gengið vonum framar í millitíðinni, og í framhaldi af þeim skrefum sem stigin voru í fyrra. Þess vegna er afar einkennilegt, kemur spánskt fyrir sjónir, að menn komi hingað upp og segi: Ja, við erum að tapa á þessu öllu saman. Er ekki sorglegt hvað við erum að tapa miklu á því að stíga þessi skref núna? Þetta er allt öfugt. Þetta er röksemdafærsla sem er á hvolfi.

Við njótum góðs af því, Íslendingar, að komast aftur í heilbrigða stöðu þar sem við erum laus undan höftum. Skuggi haftanna byrjaði að hörfa á síðastliðnum tveimur árum og stærstu skrefin voru stigin með uppgjöri slitabúanna, útboðið var næsta skref, aflétting hafta og setning fjárhæðarmarka voru kannski þriðja skrefið. Og nú erum við að stíga enn eitt skref til fullnaðarsigurs gagnvart haftalosun á innlenda aðila. Hvað verður síðan í framhaldinu varðandi þá sem ekki ganga að því tilboði sem Seðlabankinn hefur stillt fram verður tíminn bara að leiða í ljós. En auðvitað stefnir allt í það að enn verði umtalsverðar fjárhæðir háðar sérstökum takmörkunum á reikningum samkvæmt þeim lögum sem sett voru í fyrra. Og við munum áfram þurfa að meta það hvenær og hvernig frekari skref verði stigin til þess að þær eftirhreytur þessara ráðstafana verði endanlega afnumdar. Í dag er ekkert hægt að fullyrða um það.

Í dag er einfaldlega tími til að fagna því sem okkur hefur — og það er mjög auðvelt fyrir mig að segja og taka undir það sem hér kom fram áðan — sameiginlega tekist að gera til að skapa þessar góðu aðstæður. Það er í raun með ólíkindum hve mikill uppgangur hefur verið á Íslandi frá því að við lentum í hremmingunum, að við skyldum fyrir löngu hafa lokað fjárlagagatinu, greitt niður skuldir og nú losað okkur undan höftum á sama tíma og kaupmáttur landsmanna hefur aukist örum skrefum. Landsframleiðslan er komin fram úr því sem hún var fyrir efnahagshrunið. Allt þetta er langt umfram væntingar þeirra sem við höfum leitað ráða hjá og í raun og veru fram úr væntingum þess sem hér talar.

Þetta er dagur til að fagna, en verkefnum er hvergi nærri lokið. Þau koma á færibandi til okkar áfram og við þurfum að vanda okkur og beita langtímahugsun til að fara ekki út af sporinu.