146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:07]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Nú væri gaman að geta fagnað því með hæstv. forsætis- og efnahagsráðherrum að á miðnætti í kvöld verður afnámi gjaldeyrishafta því sem næst lokið, en skuggi leyndarhyggju fellur á gleðina. Ákvörðun um afnám hafta virðist nokkuð vel unnin en ég hef takmarkaðar forsendur til að meta það því að afar takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir þinginu.

Það er furðulegt hversu lítið samráð ríkisstjórnin hafði við þingið um framkvæmdina. Einn stuttur leynifundur með formönnum stjórnarandstöðuflokka í aðdraganda afnámsins er ekki nóg til að Alþingi geti talist vel upplýst um framgang mála. Mig langar til að trúa að þetta sé vel gert en svona leynimakk elur á tortryggni. Þá tortryggni hefði verið auðvelt að slá á með gögnum. Gagnsæi skiptir máli, jafnvel þegar trúnaður þarf að ríkja. Ef til dæmis hefðu verið lagðar fram nokkrar sviðsmyndir sem sýndu líklegar útkomur og viðbrögð við þeim liði okkur miklu betur með þetta. Hæstv. heilbrigðisráðherra talar um óvarlegt afnám regluverks. Mér finnst frekar óvarlegt að afnema regluverk án samráðs við þingið.

Spurningar vakna samt. Ef afnámið hefur slæm áhrif, hvenær munum við vita af því? Hvað verður gert þegar það gerist? Augljóslega getur Seðlabankinn breytt reglum sínum aftur og stundað gjaldeyrisviðskipti til að jafna flökt en hversu lengi og í hversu miklu magni? Hvaða vikmörk á flökti mun Seðlabankinn sætta sig við? Hvernig á þetta að hegða sér til skemmri og lengri tíma? Það þarf kannski einhverja pólitíska ákvörðun um hvort við ætlum að sætta okkur við 50% veikingu eða 50% styrkingu krónunnar á næstu fimm árum, sem er ekki það fráleit hugmynd ef maður skoðar gengisflöktið síðustu vikuna.

Svo er spurning hvernig eftirliti hefur verið háttað fyrir afnám hafta. Nú er mikil leynd, svo mikil að Alþingi sjálft frétti af þessu í gegnum fjölmiðla á sunnudagsmorgni. Hið eina jákvæða við það er að líkurnar minnka á að einhverjir hafi getað nýtt sér upplýsingarnar fyrir helgi. En þá er spurning hvenær ákvörðunin var tekin og hvað hefur verið fylgst með gengi mála í millitíðinni. Nú er það vel þekkt að þegar neyðarlögin voru sett á sínum tíma láku upplýsingar úr Seðlabankanum yfir í viðskiptabanka í gegnum fjölskyldu- og vinatengsl.

Það er líka rétt að spyrja sig í þessu samhengi eins og Cíceró gerði: Cui bono? Hver græðir? Að sjálfsögðu þeir aðilar sem munu áfram vilja stunda vaxtamunarviðskipti. Þótt enn séu höft á slíkum viðskiptum skulum við ekki vanmeta nýsköpunargleðina á fjármálamarkaðinum og í fjármálaheiminum. Einnig er nokkuð ljóst að nokkrir sjóðir sem áttu töluvert af aflandskrónum græddu töluvert mikið miðað við fyrri áætlanir sem gengu út frá því að aflandskrónueigendur mættu afgangi. Þannig vekur furðu að þegar þessi fyrirtæki eru skoðuð kemur í ljós að nokkur þeirra stærstu eru með sama heimilisfangið. Það er kannski sama fólkið á bak við þessi fyrirtæki? Hver veit? Hvaða fólk er þetta og hvers vegna er því hleypt fram fyrir í röðinni?

Svo er kannski ljósara svarið við spurningunni: Cui non prodest? Hver græðir ekki? Það er fátt sem bendir til að almenningur græði né heldur virðist það mikið áherslumál hjá lífeyrissjóðunum, sem hagkerfi okkar á því miður of mikið undir, en þeir hafa ekki verið að fullnýta sér þær heimildir sem hafa verið til staðar.

Og að lokum: Quis solvit? Hver borgar? Það er heldur ekki ljóst. En það lítur út fyrir að það sé ríkið. 90 milljarða sala á 137,5 kr. gengi er 20 milljarða afsláttur. Ef allt selst sem eftir er í snjóhengjunni fer það upp í 50 milljarða. Það eru rúmlega fjórföld Vaðlaheiðargöng eða tvöföldun allra einbreiðra brúa á landinu tíu sinnum. Ekki það að ég viti hvað við gætum gert við tuttugufaldar brýr en það er annað mál.

Frú forseti. Allt sem er áður nefnt er til þess gert að benda á að nánast allt við þessa aðgerð er óljóst. Það er meira að segja óljóst hvort þetta sé óljóst vegna þess að enginn hafi athugað þessi atriði eða hvort Alþingi hafi verið skilið út undan. Tónninn sem var sleginn í gær var þess eðlis að ýmislegt sem við höfum gengið út frá varðandi afnám hafta var sett í uppnám. Við höfðum gengið út frá því að fyrst yrði afnám hafta gagnvart almenningi og fyrirtækjum klárað en þeir aflandskrónueigendur sem tóku ekki þátt í útboðinu síðastliðið sumar yrðu látnir mæta afgangi. Við höfðum einnig gengið út frá því að stór orð hæstv. fjármálaráðherra úr kosningabaráttunni, um nauðsyn nýrrar nálgunar í peningastefnu, yrðu komin fram með einhverju móti áður en ráðist yrði í þessa framkvæmd. Og enn og aftur er bara skipaður nýr starfshópur og engin raunveruleg framtíðarsýn skilar sér frá ríkisstjórninni heldur bara illa rökstuddar skyndiákvarðanir, eða alla vega lítur það þannig út fyrir okkur sem engar upplýsingar fáum.

Það sem við erum að óska eftir er skýrleiki og framtíðarsýn. Við viljum samráð og skynsemi. Það getur vel verið að afnám hafta sé með besta móti. Ég vona það. Til hamingju, ef svo er. En það er bráðnauðsynlegt að þingið geti fullvissað sig um að öll ákvarðanatakan sé rétt og góð.