146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála og efnahagsráðherra.

[16:16]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að verið sé að losa fjármagnshöft á íslensk heimili og fyrirtæki. Enn fremur er jákvætt að við sjáum að áætlun um losun fjármagnshafta, sem kynnt var í júní 2015, skuli vera framfylgt að mestu leyti. Ég hefði samt viljað sjá að við hefðum fyrst losað fjármagnshöftin á heimili og fyrirtækin í landinu og svo á vogunarsjóðina.

Mig langar að rifja upp að útboðið sem var haldið hinn 16. júní síðastliðinn var það síðasta í röð útboða þar sem eigendum aflandskróna bauðst að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hæfu losun á innlenda aðila. Af því tilefni sagði seðlabankastjóri, með leyfi forseta:

„Með útboðinu og nýlegum lagabreytingum hefur síðustu stóru hindruninni verið rutt úr vegi þess að hægt sé að stíga stór skref til að losa fjármagnshöft gagnvart innlendum aðilum án hættu á óstöðugleika.“

Jafnframt segir:

„Þótt ekki hafi verið unnt að taka öllum tilboðum í aflandskrónueignir auðveldar það lausn þess vanda sem eftir stendur að eigendum krafna hefur fækkað mjög. Þá hefur verið búið svo um hnútana að aflandskrónur sem eftir standa valdi ekki óstöðugleika á meðan losun fjármagnshafta á innlenda aðila gengur yfir. Smitunaráhrif ættu því að vera hverfandi og hætta á óstöðugleika lítil.“

Minn skilningur er því að stjórnvöld hefðu komið þessum aflandskrónum frá og inn á læsta reikninga. Næsta skrefið væri að losa höft á innlenda aðila og sjá hvernig framvindan á gjaldeyrismarkaði væri og áhrifin á fjármálastöðugleika. Síðan yrði losað um aflandskrónueigendur sem ekki tóku þátt í útboðinu í júní.

Það er synd að sjá að veðmál vogunarsjóðanna hafi gengið upp og þeir fengið sitt á mettíma. Þeir sem ákváðu að spila ekki eftir reglunum bættu í raun stöðu sína. Það lítur út fyrir að þeir hafi hagnast um 20 milljarða á því að bíða. Ég spyr: Er það rétt að bjóða þeim vogunarsjóðum sem ekki tóku þátt í almennu útboði betri kjör en hinum sem tóku þátt? Getur verið að þetta geti skapað skaðabótaskyldu á herðar ríkisins vegna þessa mismunar eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kom að?

Nú reyndu þessir aðilar sem ekki tóku þátt í útboðinu að hafa áhrif á síðustu þingkosningar með heiftúðlegum auglýsingum til að draga úr trúverðugleika íslenskra stjórnvalda. Má þá draga þá ályktun að þessar auglýsingar hafi skilað tilætluðum árangri. Sumir þingmenn hafa spurt hvort þetta geti haft áhrif á Viðreisn og Bjarta framtíð, þ.e. að formanni Viðreisnar hafi í raun alls ekki hugnast að fá Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn vegna þess að hann væri erfiður og gagnrýninn, sérstaklega í málum er varða endurreisn Ísland. Getur það verið, virðulegur forseti?

Við sjáum að krónan hefur verið að veikjast það sem af er degi. En að mínu mati er fullsnemmt að segja til um hver gengisþróunin verður á næstu missirum. Það er mikill kraftur í íslensku hagkerfi, kröftugur hagvöxtur, skuldir heimilanna og fyrirtækjanna hafa lækkað og umfangsmikið innflæði hefur verið af erlendum gjaldeyri í tengslum við ferðaþjónustuna. Horfurnar eru góðar ef rétt er á málum haldið. Það jákvæða við daginn er að almenningur og fyrirtæki búa við aukið frelsi er varðar fjármagnsflutninga. Mikilvægast er þó fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu að þau búi við gengis- og fjármálastöðugleika. Efnahagsstjórnin á hverjum tíma verður að taka mið af því markmiði til að auka hagsæld lands og þjóðar.