146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áform um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka.

[15:11]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram á sömu nótum. Nú um helgina bárust þær fréttir að Goldman Sachs og þrír aðrir vogunarsjóðir hefðu keypt nærri 30% hluta í Arion banka fyrir 40 milljarða kr. sem og að samið hefði verið um að fjárfestingarhópurinn fengi forkaupsrétt upp á 21,9% hlut í Arion banka. Það eru stórar fréttir enda í fyrsta sinn sem hluti í banka á Íslandi er seldur til erlendra aðila með þessum hætti.

Í ljósi þessara fregna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver áform liggi fyrir um sölu eignarhlutar ríkisins, eignarhlutar þjóðarinnar, í Íslandsbanka og Landsbankanum. Eru þau til staðar? Liggja fyrir einhver drög eða undirbúningsvinna að þessu leyti? Og í framhaldinu langar mig einnig að spyrja: Er eitthvað til í þeim þráláta orðrómi sem verið hefur um að selja eigi Íslandsbanka til erlendra aðila? Er eitthvað til í því?

Ég verð einnig að fá að vita hvort ráðherra telji skynsamlegt að ráðast í einkavæðingu á þjóðarbönkunum nú strax. Eitt af því sem okkur ber að taka tillit til er að sjálfsögðu skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir bankahrunsins. Þar kom mjög skýrt fram að of margir bankar voru seldir á allt of skömmum tíma, sem gerði það að verkum að við fengum ekki besta mögulega verðið fyrir bankana okkar, ekki hæfustu stjórnendurna til að kaupa bankana, hæfustu eigendurna. Sú sem hér stendur spyr sig: Erum við að sigla aftur inn í 2007? Erum við að fara að selja þrjá banka á einu bretti á þessu kjörtímabili? Verður þetta kjörtímabil einkavæðingar og í raun og veru endurreisn hrunsins?