146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áform um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka.

[15:15]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir að við eigum að vanda okkur. Hæstv. fjármálaráðherra talar um að við eigum að taka okkur eitt kjörtímabil eða jafnvel tvö. Ég held að við eigum að hugsa lengra fram í tímann. Við eigum að hugsa þetta mjög heildstætt. Á ríkið að eiga hlut í bönkunum? Það er líka ein spurning. En það sem mig langar til að beina að hæstv. fjármálaráðherra er hvernig hann hyggst þá standa að mögulegri einkavæðingu. Hvernig eigum við að vanda okkur í þetta sinn? Það sem gerðist síðast var að engum reglum eða siðalögum var í raun fylgt eftir. Allar reglur voru brotnar sem gerði að verkum að við enduðum þar sem við enduðum. Hvað ætlar hæstv. fjármálaráðherra að gera, komi til þess að selja hlut í Íslandsbanka eða Landsbankanum, til þess að tryggja að menn fari vandlega undirbúnir af stað og að niðurstaðan verði vönduð?