146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áform um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Þetta er mjög góð spurning. Hvernig á að selja hlutina í bönkunum? Eina ástæðan fyrir því hve illa tókst til síðast var sú að þá var leitað eftir kaupendum á stórum hlutum í bönkunum, ráðandi hlutum í bönkunum tveimur. Það var ekki farsæl stefna. Ég hef ítrekað lýst því yfir að ég tel farsælast að eignarhald á bönkum sé dreift. Ég tel betra að það væri ekki einn aðili sem færi með ráðandi hlut í bönkum. Auðvitað þarf þetta að gerast í ferli sem allir eiga möguleika á að koma að. Ég held að það væri ágætt að selja bankana ekki í allt of stórum hlutum, en auðvitað verður það að ráðast af aðstæðum á hverjum tíma, bæði í samfélaginu og hér meðal fulltrúa þjóðarinnar.

Ég er sammála því að þetta er þjóðareign sem við verðum að fara vel með.