146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

tjáningarfrelsi.

[15:31]
Horfa

Oktavía Hrund Jónsdóttir (P):

Forseti. Segja má að fáir hlutir beri uppi lýðræðið í landinu á sama hátt og tjáningarfrelsi gerir. Þetta frelsi er ekki einungis dýrmætt fyrir einstaklinginn í samfélaginu heldur veitir það fjórða valdinu vernd til að draga þingheim til ábyrgðar. Það leggur grunn að fjölbreyttari menningu og stuðlar að gagnsæi og réttlæti í samfélaginu. Fimmti hver landsmaður treystir Alþingi Íslendinga og traust við stjórnsýsluna er í lágmarki. Þess vegna verður maður agndofa við athugasemdir hæstv. dómsmálaráðherra um þennan síðasta áfellisdóm Íslands hjá Mannréttindadómstóli Evrópu í tjáningarfrelsismálum.

Aðspurð um hvort þetta sé ekki vandræðalegt svarar hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Nei, nei, ég myndi nú ekki segja það. En þetta er auðvitað vísbending um að það sé eitthvað óljóst í þessum málum sem þurfi að skýra betur.“

Er hæstv. ráðherra alvara með þessum ummælum sínum? Áðurnefnd ummæli ráðherra eru ekki líkleg til að auka traustið á Alþingi. Hæstv. ráðherrann lýsir sig tilbúinn til að skoða málið sem hingað til hefur þýtt að gera akkúrat ekki neitt. Nú er búið að dæma Ísland fyrir brot á fjölmiðlafrelsi í fimmta sinn á örfáum árum. Samtímis bendir formaður dómarafélagsins á að nútímavæða verði almenn hegningarlög í stað þess að dvelja í fortíðinni og afneita augljósri þróun samfélagsins og lýðræðis á Íslandi.

Við vitum að skerðing á tjáningarfrelsi er eitt helsta vopn þjóðernissinna og fasista. Við eigum að vera með bestu löggjöf í heimi um tjáningarfrelsi og útfærslan verður að vera traustvekjandi og sanngjörn.

Í ljósi áðurnefndra fullyrðinga hæstv. dómsmálaráðherra spyr ég: Hvað sér hún sem eðlilega leið til að bregðast við í þessu máli? Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að ítrekuð brot íslenskra dómstóla gagnvart tjáningarfrelsi íslenskra blaðamanna, líkt og dómar Mannréttindadómstólsins í Evrópu eru dæmi um, ógni lýðræði á Íslandi?