146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[15:49]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög brýn umræða og ég þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er auðvitað löngu kominn tími til að við tökum upp skipulag haf- og strandsvæða, rétt eins og okkur vantar sárlega landsskipulag sem tekst á við margs konar nýtingu sem þar fer fram, ég nefni ferðaþjónustuna. Þar kemur inn í líka almannaréttur, um aðgengi. Það gildir líka um strandsvæðin.

Ég sé fyrsta kastið margt mjög jákvætt við að sveitarstjórnir hafi skipulagsvaldið og séu þar með ytri svæðin, utan netlaga, ég lít á svæðisráð sem jákvætt skref. En málið er gríðarlega flókið og við þurfum að gefa okkur góðan tíma til umræðna. Nýtingin er fjölþætt. Þar vegast á náttúrunytjar og náttúruvernd og það er spursmál varðandi rannsóknir og þekkingu á þessum svæðum, hvort þær séu raunverulega nægar til þess að við getum afgreitt þetta mál án mikið meiri umræðu en á þessu þingi. Það sem meira er, þar sem koma upp deilur í þessu málum sem snerta annars vegar almannahagsmuni, hagsmuni sveitarstjórnanna og svo ríkisins getur verið óvíst hvar úrskurðarvaldið liggur.

Það eru margar ríkisstofnanir sem eru til þess bærar til að leggja í púkkið, ég nefni Umhverfisstofnun, ég nefni Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafró og fleiri stofnanir. Spurning er hvort ekki þurfi að setja sérlög um sumt af því sem við höfum verið að ræða í þessu sambandi, eins og fiskeldið. Inn í þetta kemur þangskurður sem verið hefur við lýði nokkuð lengi og það er spurning hvernig honum reiðir ef. Ég held að þetta sé málefni sem taka þarf mjög vandlega umræðu um en ekki flana að neinu.