146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[15:52]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um ákveðið grundvallarmál sem snýst um það hvort sveitarfélög og landeigendur eigi að hafa eitthvað um atvinnustarfsemi að segja, t.d. á borð við fiskeldi og þangskurð sem fer fram skammt undan landi. Ég vil benda á þrjár hliðar þessa máls.

Í fyrsta lagi er þetta jú skipulagsmál. Fréttir bárust af því að austur á Reyðarfirði hafi sveitarstjórnin átt fullt í fangi með að halda siglingaleiðum að bryggjum sveitarfélagsins opnum vegna fyrirætlana laxeldisfyrirtækja um staðsetningu eldiskvía. Ég hef nú svo sem trú á að það bjargist.

Í öðru lagi snýst þetta um fjármuni, mikla fjármuni. Svo virðist sem þarna sé um að ræða einhvers konar einskismannslands, þ.e. utan við þessa 115 m, þar sem tekjur viðkomandi sveitarfélags eru ekki nema brot af því sem þær væru ef þessi atvinnustarfsemi færi fram á landi eða innan 115 m.

En auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um náttúruvernd og það er að mínu mati mikilvægasta hliðin á þessu máli. Mér er nokk sama, ef ég má segja svo, um hver það er sem fer með skipulagsmál yfir haf- og strandsvæðum ef við skoðum þetta í stóra samhenginu. Norðmenn hafa fengið að kenna á lúsavanda, genabreytingum vegna fiska sem hafa sloppið úr eldiskvíum. Það er ein stórkostleg vá sem vofir yfir. Fregnir hafa borist af því að Svíar hafi bannað fiskeldi í sjó á þremur stöðum vegna efasemda um að Eystrasaltið geti brotið niður öll þau efni sem fylgja fiskeldinu. Hér minntist hæstv. umhverfisráðherra einmitt á burðarþol fjarða að því leyti.

Svo mikið er víst að við verðum að ræða þessi mál á heildstæðan og opinskáan hátt með málefni náttúruverndar að leiðarljósi fyrst og fremst, ekki með málefni atvinnustarfsemi að leiðarljósi.