146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[15:54]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Það er vaxandi eftirspurn eftir athafnasvæðum á haf- og strandsvæðum. Aukning í þessari starfsemi kallar réttilega á heildstæða löggjöf um skipulagningu slíkra svæða eins og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra boðar, og því ber að fagna.

Uppbygging fiskeldis er besta dæmið. Ég tel mikilvægt að stjórnvöld styðji áfram við þá uppbyggingu með sjálfbærni að leiðarljósi. Að mínu mati er vel hægt að hugsa sér þá leið að byggja áfram á þeirri meginreglu gildandi skipulagslaga að leggja málið þannig upp að skipulagsvaldið verði áfram í höndum sveitarfélaga. Samkvæmt núgildandi löggjöf nær skipulag sveitarfélaga aðeins 115 m út á sjó eins og hér hefur komið fram.

En hægt er að færa þessi mörk með lögum og það er tiltölulega einfalt. Þetta er gömul regla, gömul viðmiðunarregla, sem hægt er að uppfæra svo að hún taki mið af nýjum aðstæðum og nýjum verkefnum sem við erum hér að fást við. Skipulagsstofnun myndi svo eftir sem áður staðfesta skipulag strandsvæða sveitarfélaga og tryggja að skipulagið væri á hverjum stað í samræmi við landslagsskipulagsstefnu ríkisins.

Með þessu fyrirkomulagi væri tryggt að skipulagsvald strandsvæða, eins og til dæmis fyrir starfsemi fiskeldis og ferðaþjónustu, verði á ábyrgð fulltrúa heimamanna á hverju svæði og íbúar hefðu aðkomu að ákvörðunartöku um skipulag í sínu nærumhverfi. Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Þetta skiptir máli. Það eru heimamenn sem hafa oft og tíðum þá þekkingu, þá reynslu, sem þarf til að meta hvaða starfsemi geti farið saman og hvaða ólíku starfsemi er hægt að samþætta og tryggja að fari saman.