146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[15:58]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Eitt grunnstefið í málflutningi Samfylkingarinnar er virðing fyrir náttúru landsins, og umhverfisvernd er ríkur undirtónn í allri umfjöllun okkar á þessum vettvangi. Stöðugt er tekist á um sjónarmið og hagsmuni: Hvenær göngum við á rétt náttúrunnar? Erum við að taka áhættu? Eru aðgerðir okkar óafturkræfar? Erum við að ganga fram með óábyrgum hætti gagnvart núverandi og komandi kynslóðum? Þetta eru einhverjar af þeim mikilvægu spurningum sem okkur ber að velta upp, leita svara við og ná sátt. Ýmislegt af ákvörðunum okkar í samfélaginu undangengna áratugi sem snerta náttúruvernd og umhverfismál orka tvímælis, sumt af því er afturkræft og annað ekki, sem getur verið afdrifaríkt.

Á þingmálaskrá eru nú tvö frumvörp sem lúta að nytjum haf- og strandsvæða. Strandsvæði eru ásamt innfjörðum og flóum hluti af skipulagsáætlunum sveitarfélaga, bæði beint og óbeint, en er takmarkað samkvæmt núgildandi lögum. Sveitastjórnir sem í hlut eiga telja að mikilvæg markmið um nýtingu og verndun auðlinda á sjálfbærum grunni, bæði í þágu uppbyggingar og velferðar, náist ekki að óbreyttu og vilja aukið sjálfsforræði varðandi skipulag strandsvæða. Nýjar atvinnugreinar spretta upp við ströndina og aðrar eru í mikilli sókn.

Það er skoðun okkar jafnaðarmanna að mikilvægt sé að treysta grundvöll atvinnu á landsbyggðinni sem hefur farið halloka mörg undanfarin ár. Við eigum að gefa landsbyggðinni séns. Við eigum að skoða hvern möguleika í þaula með opnum huga og með ábyrgum hætti, vega og meta hagsmuni fólks og umhverfis. Við jafnaðarmenn leggjum áherslu á að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð í hvívetna. Regluverk og lög þurfa að vera skýr, raunveruleg eftirfylgni tryggð og eðlilegt afgjald, fyrst og fremst til styrktar viðkomandi sveitarfélögum, sé fyrir hendi. Við fögnum nýjum og uppbyggilegum tækifærum, viðbótum við fremur fábreytta atvinnuflóru en eingöngu að uppfylltum ströngustu skilyrðum sem stjórnvöld setja og framfylgt er af fagfólki og viðurlögum beitt ef svo ber undir.