146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[16:02]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Aðalskipulag sveitarfélaga og svæðisskipulag sem fleiri sveitarfélög taka sig saman um, stundum um ákveðna málaflokka eins og samgöngur, ferðaþjónustu og náttúruvernd, er eitt mikilvægasta stjórntæki sveitarfélaganna í landinu. Það er mikilvægt að sveitarfélögin fari með skipulag haf- og strandsvæða á sínum svæðum ekki síður en á landi. Hagsmunirnir eru mjög tengdir og miklir. Ég nefni ferðaþjónustu, sjávarnytjar, fiskeldi, verndun villtra laxastofna, verndun á hafsbotni og lífríki, samræmingu mismunandi nýtingar og verndunar.

Ég tel vart réttlætanlegt að ganga á skipulagsvald og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga nema ríkir almannahagsmunir kalli á slíkt, svo sem vegna áforma um stórfelld náttúruspjöll eða til að tryggja öruggt sjúkraflug.

Skipulagsvald sveitarfélaga á haf- og strandsvæðum þarf að tryggja með lagasetningu eftir því sem við á. Enn fremur að sveitarfélögin fari með ríkari umsýslu á haf- og strandsvæðum og svæðisbundnar eftirlits- og rannsóknarstofnanir fái aukið fjármagn og hlutverk við eftirlit og rannsóknir ásamt ráðgjöf um verndun og nýtingu. Vil ég þar nefna heilbrigðiseftirlitin, náttúrustofurnar víðs vegar um landið, HA, Hólaskóla, Selasetrið á Hvammstanga, BioPol á Skagaströnd og síðast en ekki síst Háskólasetrið á Vestfjörðum sem sérhæfir sig í nýtingu og verndun haf- og strandsvæða.