146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[16:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Umræðan um skipulagsmálin er sannarlega mikilvæg, en ég hvet til þess að umræðan um fiskeldi í opnum sjókvíum snúi ekki einungis að skipulags- og atvinnumálum heldur ekki síður að umhverfismálum og hvaða áhætta sé tekin með því að veita leyfi fyrir fiskeldi í opnum sjókvíum og að arður af auðlindinni gangi til samfélagsins.

Í Fréttatímanum frá því um síðustu helgi var frétt um að Svíar hefðu bannað fiskeldi í opnum sjókvíum á þremur stöðum meðfram strandlengjunni í Austur-Svíþjóð vegna slæmra umhverfisáhrifa slíks eldis. Það er niðurstaða dómstóls í Svíþjóð sem sérhæfir sig í umhverfismálum. Dómurinn telur ólíklegt að sjórinn geti brotið niður þau efni sem berast út í hann í slíku fiskeldi. Samkvæmt Fréttatímanum er dómurinn talinn bera með sér endalok alls sjókvíaeldis í Svíþjóð.

Á sama tíma og þetta er að gerast í Svíþjóð erum við Íslendingar að auka sjókvíaeldi verulega. Nú þegar er búið að veita leyfi fyrir laxeldi í sjó fyrir þúsundum tonna og sótt hefur verið um leyfi fyrir viðbót á starfrækslu eldis á tugum þúsundum tonna víðs vegar um landið án þess að fullnægjandi undirbúningur hafi farið fram. Ekki hafa verið gerðar nægilegar rannsóknir á lífríkinu og þar með hafa þeir sem eiga beina hagsmuni af því að vistkerfi sjávar verði ekki raskað ekki nægilega góðar upplýsingar til að geta varið hagsmuni sína. Eitt af því sem þarf t.d. nauðsynlega að liggja fyrir eru upplýsingar um lyf sem notuð eru í slíku fiskeldi og hvaða áhrif þau ein og sér hafa á lífríkið. Skipulagsmálin eru eitt af kjarnaverkefnum sveitarfélaganna og eitt mikilvægasta stjórntæki þeirra. Við lagasetningu þarf að taka tillit til þessa og við ákvörðun um úthlutun leyfa verður að ganga úr skugga um að ýtrustu kröfum um umhverfismál verði fylgt og að auðlindarentan renni til samfélagsins.