146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

áherslur í skipulagi haf- og strandsvæða.

[16:11]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Hún er greinilega þörf. Það er aðkallandi að við komum okkur áfram í þessu mikilvæga máli sem lýtur að framtíð okkar í þessu landi.

Ég fagna því að ráðherra talar um að hér eigi að koma betra skikki á umsóknarferli og eftirlit með umsóknum því að umsóknarferlið er flókið og mikið. Þar sér Hafró um burðarþolsmælingar, Skipulagsstofnun um umhverfismat, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun eru báðar eftirlitsaðilar en það vantar alveg stofnunina sem er hausinn á verkefninu, hefur yfirsýn með þessu. Ég spyr: Hvaða leiðir sér ráðherra í því?

Það sem ég líka hef tekið eftir í þessu samtali sem við eigum er að menn sjá leið til að breyta. Það kemur fram í áliti frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem fer með stefnumörkun fyrir sveitarfélögin, að í þeirri vinnu verði lögð áhersla á, með leyfi forseta, „að skipulag strandsvæða, allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar, verði á forræði sveitarfélaga.“ Þá kom fram í máli þingmanna að það væri hægt að færa mörk. Það hefur komið fram hjá nokkrum sveitarfélögum að það ætti í rauninni að miða við firði. Mælieiningin sem við höfum á þá er frá nesi til ness. Þar er dregin lína.

Sér ráðherra það sem leið? Er möguleiki á að útvíkka það? Því ég gat ekki merkt það á máli ráðherra að hún ætlaði sér að breyta einhverju í þessu skipulagi. Ég spyr þá bara beint að því: Er hún tilbúin til að skoða þessar hugmyndir sveitarfélaga og fulltrúa sveitarfélaga um breytingu í þessa átt? — Annars vil ég þakka góða umræðu.