146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

hamfarasjóður.

187. mál
[16:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina.

Málshefjandi rakti upphaf þessa máls mjög vel og það hvernig fyrri ríkisstjórn skipaði starfshóp til þess að kanna fýsileika á þessum sérstaka hamfarasjóði. Í kjölfarið skipaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp um gerð frumvarps vegna stofnunar hamfarasjóðs. Það eru ýmsir sem eiga sæti í þeim hópi, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, innanríkisráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga og hópnum er stýrt af fulltrúa í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Starfshópurinn áætlar að ljúka við gerð frumvarps á þessu ári. Ég stefni á að leggja það fram á næsta löggjafarþingi.

Spurt er: Er gert ráð fyrir að sett verði á laggirnar sérstök stofnun til þess að sinna verkefnum hamfarasjóðs eða hvernig verður þeim sinnt að öðrum kosti?

Í skýrslu þess starfshóps sem málshefjandi tiltók hér áðan þá var lagt til að hamfarasjóður yrði vistaður hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en ekki yrði sett á fót sérstök stofnun til að koma honum á fót. Núverandi starfshópur sem undirbýr þetta frumvarp … (Gripið fram í.) Nei, það var ekki gert ráð fyrir því.

Þá er spurt hvernig ráðherra sjái fyrir sér að nægt fjármagn til sjóðsins verði tryggt.

Lagt var til að hamfarasjóður yrði fjármagnaður með þeim tekjustofnum sem til staðar eru í dag. Þar er um að ræða tekjur ofanflóðasjóðs, framlag ríkissjóðs í A-deild Bjargráðasjóðs, hlutdeild í tekjum Viðlagatryggingar Íslands og framlagi sveitarfélaga ásamt viðbótarframlagi ríkissjóðs eftir þörfum. Stærsti hluti þessara tekna eru tekjur af ofanflóðagjaldi. Starfshópurinn sem undirbýr umrætt frumvarp vinnur m.a. að útfærslu á framangreindri tillögu.