146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

hamfarasjóður.

187. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir svör hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Það er gleðilegt að þetta frumvarp sjái dagsins ljós á þessu ári. Ekki var ljóst af svörum hæstv. ráðherra hvernig þessum sjóði verði ráðstafað. Ef þetta nýtist seint og um síðir, sem við skulum vona, verður um að ræða úthlutanir á töluverðu fé. Þessi sjóður mun innihalda hundruð milljóna ef ekki meira. Ég sé heldur ekki fyrir mér hvort tekjur þær sem hún nefnir og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á, séu raunverulega nægar. Það verður þá að koma í ljós eða hæstv. ráðherra verður að skýra það betur.

Það er ljóst að maður þarf ekki að fjölyrða um eldvirkni og jarðskjálftavá á Íslandi eða snjóflóð, eða jökulhlaup eins og í Skaftá með tilheyrandi landskemmdum, eða skotrað augum á Bárðarbungu eða Heklu eða Kötlu eða Grímsvötn, það þarf að setja kraft í að ljúka við þennan þátt í viðbrögðum við náttúruvá sem felst í því skrefi að stofna hamfarasjóð og koma honum í gagnið með sem bestum skikk hvað snertir alla stýringu, úthlutanir, fjármálin og annað slíkt. Ég vona virkilega að þetta frumvarp sjái dagsins ljós sem allra fyrst og verði mjög vandað að allri gerð.