146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

framhaldsskóladeild á Reykhólum.

191. mál
[16:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að fyrirspurn sem lýtur að þessu máli kom frá Reykhólahreppi inn í ráðuneytið í september á síðasta hausti. Þar var spurst fyrir um möguleikana á því að setja á laggirnar framhaldsskóladeild á Reykhólum. Ráðuneytið tók þetta til umfjöllunar og er enn að vinna með málið. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það með hvaða hætti unnið verði frekar að því verkefni en ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns áðan að það er gríðarlega mikilvægt að reyna að skoða alla kosti þess sem uppi geta verið til þess að gera ungum nemendum kleift að stunda framhaldsnám í heimabyggð sinni eins lengi og unnt er, þá sérstaklega á framhaldsskólastigi. Það er allra hagur að málin geti gengið þannig fyrir sig.

Til þess að þetta sé kleift þarf að tryggja ýmsa þætti, sérstaklega þá sem lúta að kennsluumsjón og aðra þætti sem er nauðsynlegt að fella í ákveðinn farveg. Sömuleiðis þarf að tryggja fjármuni til að gera það kleift að viðkomandi framhaldsskóladeildir geti rekið sig skynsamlega.

Við höfum góða reynslu af starfi slíkra framhaldsskóladeilda. Það kunna að vera á þessu máli einhverjir þeir annmarkar sem ég hef ekki upplýsingar um eða þá einhverjir kostir í stöðunni sem vel er hægt að nýta. Það kemur í ljós þegar ráðuneytið hefur lokið umfjöllun sinni um málið.