146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

framhaldsskóladeild á Reykhólum.

191. mál
[16:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir svarið. Mig langar að upplýsa hæstv. ráðherra um að þetta var fyrirspurn sem hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis fengu á ferðalagi sínu um kjördæmið í síðustu kjördæmaviku.

Ég fagna því að vinna sé hafin í mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að skoða alla fleti þessa máls og hvort verkefni sem þetta sé framkvæmanlegt. Ég leyfi mér að vera bjartsýn á að þetta ætti að geta gengið upp, sérstaklega þar sem fram kemur í rökstuðningi frá Reykhólahreppi að nú séu stórir árgangar af nemendum að komast á framhaldsskólaaldur. Það hefur líka verið einstaklega gaman að fá fréttir frá byggðarlögum þar sem deildir sem þessar eru starfræktar þar sem — þegar ég var að vinna að undirbúningi að þessu máli tók ég eftir því að mikið líf hafði færst í samfélögin með því að nemendur fengu að vera lengur heima. Ég sá m.a. fréttir af því að líf hefði færst í leikfélög og aðra starfsemi sem skiptir samfélögin gríðarlega miklu máli.

En mig langar að lokum að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort sett hafi verið upp einhver tímalína innan ráðuneytisins um þá ákvörðun sem tekin verður um hvort þetta verkefni geti orðið að veruleika eða ekki.