146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

nám í hjúkrunarfræði.

192. mál
[16:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svör hans og verð að segja það að maður verður óneitanlega hugsi þegar maður sér þessar tölur um vöntun sem kemur fram í því mati sem gert hefur verið. Það er rétt sem hæstv. menntamálaráðherra, fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, bendir á að það er mikilvægt að horfa á landið í heild sinni þegar kemur að störfum hjúkrunarfræðinga og auðvitað öllum öðrum störfum sem sinnt er hér á landi. Því erum við Framsóknarmenn mjög sammála og lítum til þess í þingsályktunartillögu sem við höfum lagt fram um heilbrigðisáætlun fyrir landið allt þar sem er kveðið á um þjónustu á landsbyggðinni allri.

Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Það er ánægjulegt að heyra að það eigi að veita aukið fjármagn til háskólanámsins alls og endurskoða reiknilíkön og að það muni gagnast háskólunum að öllum líkindum, þeim námsbrautum sem þar eru og þar er sinnt. Auðvitað vill maður taka það fram eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra að við megum ekki bara horfa á Háskóla Íslands heldur líka þær öflugu háskólastofnanir og skóla sem við höfum víða um landið eins og á Akureyri og einnig í Norðvesturkjördæmi.

Ég vona svo sannarlega að við verðum öll vakandi yfir því brottfalli sem á sér stað því við verðum, og það er ábyrgðarhlutverk okkar, að reyna að spyrna við fótum gagnvart því ástandi sem nú er og fá fólk inn í þessi störf, því að þetta varðar okkur öll.