146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

nám í hjúkrunarfræði.

192. mál
[16:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt, þetta varðar okkur öll. Það er umhugsunarvert þegar við horfum til hjúkrunarfræðinga, en sömuleiðis til kennarastétta, leikskólakennara, grunnskóla- og framhaldsskólakennara, hvernig okkur gengur að manna þessi störf. Ég held að lausnin á vandanum sé ekki endilega fólgin í því hvernig námið er unnið í skólakerfinu eða háskólastiginu. Það eru miklu fjölþættari viðfangsefni sem valda þeirri þróun sem við erum að glíma við, þá sérstaklega í því sem vekur þessa umræðu, í málefnum hjúkrunarfræðinga. Það er augljóst af þeim tölum sem hér hafa verið nefndar og upplýsingum sem ráðuneytið hefur um brotthvarf úr námi að það er ekki svo yfirgengilega mikið, heldur er skorturinn á því fagfólki sem við þurfum á heilbrigðisstofnanirnar á sviði hjúkrunarfræðinga fyrst og fremst bundinn því að hjúkrunarfræðingar kjósa að ganga til annarra starfa en þeir hafa menntað sig til. Það er viðfangsefni sem við þurfum að horfa til miklu víðar en eingöngu inn í menntakerfið.

Það er rétt að áhersla mín lýtur að því að styrkja fjármögnun háskólakerfisins og við þurfum að endurskoða reiknilíkanið fyrir háskólamenntunina. Það gagnast öllum fagstéttum eða því námi sem við ætlum að veita innan þess skólastigs. Ég veit og geri ráð fyrir því að eiga ágætissamstarf við forsvarsmenn háskólanna um þau efni.