146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

nám í máltækni.

254. mál
[16:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Staða íslenskunnar í stafrænum heimi hefur verið mörgum hv. þingmönnum hugleikin á undanförnum árum. Hér var samþykkt þingsályktunartillaga frá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem miðaði að því að sett yrði af stað nefnd sem myndi smíða aðgerðaáætlun um það að íslenskan yrði gjaldgeng í hinum stafræna heimi. Á svipuðum tíma var lagt fram mat 200 evrópskra sérfræðinga sem höfðu greint stöðu 30 evrópskra tungumála út frá hinum nýja veruleika. Þar kom fram að íslenskan væri í næstmestri útrýmingarhættu af þeim 30 tungumálum sem metin voru, á eftir maltnesku.

Ég veit að hæstv. ráðherra gerði íslenskuna að umtalsefni á fyrstu vikum sínum í embætti. Ég fagna því ef hæstv. ráðherra ætlar að taka þau mál til sérstakrar skoðunar. Það var farin af stað vinna sem fyrrverandi hæstv. ráðherra Illugi Gunnarsson boðaði um að samin yrði aðgerðaáætlun hvað varðar tungutækni og máltækni. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í nám í máltækni og framtíðarhorfur þess.

Ég hef grafist fyrir um að ekki verði tekið við umsóknum fyrir kennsluárið 2017–2018 inn í meistaranámið í máltækni við Háskóla Íslands, sem er það fræðisvið sem snýst um að mennta nemendur til að geta unnið með annars vegar tæknina og hins vegar tungumálið. Þetta kom mér á óvart. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þeirra upplýsinga, nema einhverjar nýjar upplýsingar séu fyrir hendi um að þessu hafi verið breytt, hvort til standi að skoða þetta nám sérstaklega og styrkja það með tilliti til þeirra áætlana sem stjórnvöld hafa boðað um að efla íslenskuna í stafrænum heimi. Meistaranámið snýst um að tengja saman gervigreind, málvísindi, tölvunarfræði, tölfræði og sálfræði þannig að þeir sem ljúka því námi geti komið að því verkefni að þróa búnað sem getur unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu. Það er það sem stendur upp úr öllum sérfræðingum á þessu sviði, að svo verði innan fárra ára, og raunar er það þegar byrjað, ég hef kynnt mér einhver slík tæki sem láta stjórnast af tali mínu en krefjast ekki þess að maður nýti fingurna til að slá inn skipanir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í framtíðarsýn hans varðandi þetta nám og hvort til einhverra aðgerða verði gripið þannig að unnt sé að taka inn nemendur í þetta nám, helst á hverju ári.