146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

sala eigna á Ásbrú.

155. mál
[16:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Íbúum í Reykjanesbæ fjölgaði um 7,5% á síðasta ári eða um 1.100 manns inni á svæðinu. Þar er nú gríðarleg atvinnuuppbygging. Gamla varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli er nú eitt af íbúðahverfum Reykjanesbæjar og heitir Ásbrú. Þar eru reknir tveir leikskólar og grunnskóli. Þá rekur sveitarfélagið hæfingarstöð fyrir fólk með fötlun á Ásbrú.

Frá því að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, tók yfir eignir varnarliðsins fyrir áratug síðan hafa tekjur af þeim rekstri verið upp á 17 milljarða króna en kostnaður við umbreytingu herstöðvarinnar í borgaralegt samfélag hefur á sama tíma verið 7 milljarðar. Þetta þýðir að 10 milljarðar hafa runnið í ríkissjóð.

Nú hefur nær allt húsnæði á svæðinu verið selt út úr rekstri Kadeco og því komið í borgaraleg not, nú síðast með sölu fasteigna fyrir 5 milljarða króna til Íslenskra fasteigna ehf. Með sölunni hefur Kadeco lokið við að selja um 93% þess húsnæðis sem félagið hefur haft til umsýslu á Ásbrú fyrir hönd ríkissjóðs eftir brotthvarf hersins. Frá þeim tíma hafa fasteignirnar verið seldar til 38 mismunandi aðila í opnu söluferli.

Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi, SAR, stóðu fyrir fundi í Reykjanesbæ á dögunum þar sem stöðunni á Ásbrú var m.a. velt upp. Þar kom fram að höggið hefði verið mikið fyrir atvinnulífið á svæðinu þegar herinn fór 2006 sem hafði slæm áhrif á rekstur bæjarfélagsins sem síðan versnaði enn frekar í kjölfar efnahagshrunsins tveimur árum síðar. Kostnaður Reykjanesbæjar vegna Ásbrúar hafi frá upphafi verið mun meiri en tekjur sveitarfélagsins á svæðinu.

Því er tilefni til að velta því upp við hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt að ríkið leggi til fjármuni til uppbyggingar á svæðinu sem koma út úr sölu eigna á Ásbrú.

Einnig væri áhugavert að vita hvaða sýn hæstv. ráðherra hefur á framtíðarfyrirkomulag og rekstur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Félagið var stofnað til þess að þróa fyrrum varnarsvæði og koma eignum þar í verð. Nú er rúmur áratugur liðinn frá því að ameríski herinn hvarf af landi brott. Á Suðurnesjum eru fimm sveitarfélög sem starfa náið saman að þróun svæðisins ásamt Markaðsstofu Suðurnesja og Heklunni. Maður hlýtur að velta fyrir sér: Er enn grundvöllur fyrir rekstri Kadeco eða er tími til kominn að leggja félagið niður? Hvaða skoðun hefur hæstv. ráðherra á því, þ.e. varðandi framtíð Kadeco? Liggur sú stefna fyrir?