146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

sala eigna á Ásbrú.

155. mál
[17:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að svara fyrirspurnum mínum mjög skilmerkilega. Mjög greinargóð svör sem hann gaf hér og ágæt yfirferð, áhugaverðar upplýsingar varðandi svæðið og framtíðarsýn hans á uppbyggingu svæðisins. Við erum sammála um að uppbygging svæðisins er mjög jákvæð. Það eru mjög spennandi hlutir fram undan.

Það er svo sannarlega rétt að sú uppbygging sem hefur átt sér þarna stað hingað til hefur haft verulega jákvæð áhrif fyrir Suðurnesin, svæðið í heild sinni, þ.e. til hefur orðið fjöldi nýrra fyrirtækja. Það er rétt að sveitarfélagið Reykjanesbær hefur náttúrlega fengið fasteignagjöld af þeim eignum sem hafa farið í borgaraleg not og annað slíkt. Auðvitað munar um minna. En það veldur mér samt sem áður vonbrigðum að hæstv. ráðherra hafi tekið endanlega ákvörðun um að sá hagnaður sem kemur af sölu eigna renni ekki, ekki einu sinni lítill hluti, til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu. Þó svo að bæjarfélagið, sem er eins og hæstv. ráðherra veit afar skuldsett sveitarfélag, fái ýmis gjöld og græði á þeirri atvinnuuppbyggingu sem á sér stað þarna er mjög kostnaðarsamt að breyta fyrrverandi herstöðvarsvæði í venjulegt íslenskt hverfi. Það þarf að gera ýmislegt. Ásýnd svæðisins eins og hæstv. ráðherra veit er mjög herstöðvarleg enn þá. Maður myndi vilja sjá svæðið verða fallegra en það er nú þegar. Það kostar peninga. Því hefði ég kosið að ráðherra (Forseti hringir.) hefði svarað öðru.

En það er þá gott að þetta liggur fyrir. Ég veit að sveitarfélög á Suðurnesjum verða ekki ánægð með þessi svör ráðherra en þetta er afstaða hans. Ég mun fylgja því máli vel eftir varðandi hvaða framtíðarsýn hæstv. ráðherra hefur um (Forseti hringir.) Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Það er mjög áhugaverð og brýn umræða líka.