146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

endurgreiðsla á virðisaukaskatti til ferðamanna.

239. mál
[17:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil segja að það kemur mér alls ekki á óvart að við hv. þingmaður séum sammála. Ég er nánast viss um það að flestir þingmenn eru sammála um skynsamleg mál. Þetta er einmitt eitt þeirra.

Við megum auðvitað ekki að flana að neinu. Ég er sammála hv. þingmanni að það er sjálfsagt að skoða málið vel. Það vill svo til, eins og ég gat um í ræðu minni, að við vorum þegar farin að skoða þetta mál í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þess vegna má segja að fyrirspurnin hafi komið á ágætum tíma. Þetta var eitthvað sem við höfðum hugsað. Það er ekki alltaf sem þingmenn eru svo tillitssamir að spyrja ráðherra um eitthvað sem þeir eru búnir að hugsa fyrir fram, en svo var í þetta sinn. Ég held að ástæða sé til að íhuga breytingar t.d. frá og með næsta ári. Ég held að breytingar af þessu tagi sé ekki gott að gera mjög skyndilega, ég held við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, en á næsta ári gæti vel komið til greina að hækka viðmiðunarverðið með þeim hætti sem ég nefndi. Það var fróðlegt að heyra tölur frá öðrum löndum sem eru býsna miklu hærri, sem þýðir að þetta er kannski sérstaklega hvetjandi um kaup á dýrustu hlutunum.