146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

húsnæðisbætur.

226. mál
[17:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir fyrirspurnina og langar til að nýta tækifærið til að ræða framfærslu og skerðingar almennt.

Þrátt fyrir tal ríkisstjórnarinnar um uppsveiflur, hagvöxt og batnandi hag almennings er bersýnilegt að það er sívaxandi hópur fólks á Íslandi sem hefur verið skilinn eftir. Fólk, sem í skjóli íslenskrar velferðarstefnu er haldið í fátæktargildru, lágmarksaðstoðar með skerðingum. Velferðarstefnan hefur í gegnum árin sett lög og reglugerðir sem veita fólki svo lágar bætur að upphæðirnar eru innan fátæktarmarka, og svo eru aukatekjur og bætur skertar með þeim afleiðingum að halda fólki í fátækt.

Svo vill til að Ísland er samningsbundið til að tryggja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks í landinu samkvæmt alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Ég hefði áhuga á að heyra hvort ráðherra telji okkur vera að uppfylla skyldur okkar samkvæmt þeim samningi, og ef ekki, hvernig ráðherra hyggst styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi Íslendinga og tryggja að fólk hafi hér jöfn tækifæri?