146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega þessa fyrirspurn. Ég er Evrópusinni og ég er ESB-sinni. Ég vil sækja um aðild að Evrópusambandinu að undangenginni atkvæðagreiðslu. Í þeirri atkvæðagreiðslu mun ég greiða atkvæði með því að Ísland sæki um aðild, síðan vil ég að við göngum til viðræðna og klárum þær. Mér finnst mjög líklegt að ég muni í atkvæðagreiðslu að því loknu greiða atkvæði með því að við göngum í Evrópusambandið og verðum síðan í Evrópusambandinu. Ég mun þá lifa hamingjusamur til æviloka við það fyrirkomulag sem þar er, sem er evran. Það er mín skoðun að framtíðargjaldmiðill Íslands sé evran. Í ljósi alls þess sem ég hef sagt þá kemur Evrópusambandið náttúrlega sem heill pakki með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgja. Að því sögðu er það skoðun mín að besti framtíðargjaldmiðill fyrir Ísland sé evran í gegnum aðild að Evrópusambandinu.

En við búum auðvitað við ákveðinn pólitískan veruleika. Sá veruleiki er að í þessum þingsal er það ekki meirihlutaskoðun, hún er ekki einu sinni skoðun mjög stórs hóps manna. Þess vegna þarf að leita lausna sem eru heppilegar fyrir Ísland og eru ekki undirorpnar jafn mikilli pólitískri óvissu og sú skoðun sem ég kann að hafa. Þess vegna lögðum við í Viðreisn til í kosningabaráttunni að skoðað yrði að taka upp fastgengisstefnu í gegnum svokallað myntráð. Það er ein af þeim lausnum sem sá verkefnahópur sem nú er að störfum mun skoða og hann ætlar að skoða framtíðarskipan myntmála á Íslandi. Ég fagna því. Varðandi orð fjármálaráðherra þá er hann fullkomlega fær um að svara fyrir þau sjálfur. En ég get tekið undir orð hans í heild, ég held að þau hundrað ár af sjálfstæðri myntsögu Íslands hafi ekki endilega verið farsæl saga.