146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Forseti. Við Píratar höfum verið duglegir að gagnrýna starfshætti Alþingis og ætla ég að halda uppteknum hætti hér.

Í síðustu viku voru engir þingfundir á dagskrá, einungis nefndafundir. Það kom svo á daginn að fundarfall varð í einhverjum nefndum vegna verkefnaskorts. Það voru sem sagt engin þingmál tilbúin sem viðkomandi nefndir hefðu getað fjallað um.

Ég set stórt spurningarmerki við slík vinnubrögð og leyfi mér að vitna í 26. gr. þingskapalaga en hún fjallar um hlutverk fastanefnda Alþingis, með leyfi forseta:

„Á starfstíma sínum er nefnd hvenær sem er heimilt að fjalla um mál sem heyrir undir málefnasvið hennar þó að þingið hafi ekki vísað því sérstaklega til hennar.“

Ég spyr: Hvar er frumkvæðið? Eiga nefndarmenn að stara út í blámóðu fjallanna meðan þeir bíða eftir að þingmál komi inn á borð nefndanna? Hvers vegna ræddi hæstv. fjárlaganefnd t.d. ekki hvernig hefja mætti stórkostlegt átak í byggingu félagslegra íbúða? Það vill nefnilega svo til að það er neyðarástand í þeim málum, svo ég upplýsi þá sem hugsanlega hafa misst af því. Hvers vegna ræddi utanríkismálanefnd ekki allar þær sviptingar sem eiga sér stað úti í hinum stóra heimi í stað þess að fella niður fundi? Sviptingar sem snerta okkur Íslendinga með beinum eða óbeinum hætti? Í því samhengi mætti nefna óútreiknanlegan forseta Bandaríkjanna, stórhættulegan forseta Tyrklands, sem er um það bil að ganga af veikburða lýðræði Tyrkja dauðu, þá má líka nefna uppgang fasískra afla í Evrópu, Brexit o.s.frv.

Fastanefndir eiga ekki að bíða eftir að málin komi til þeirra. (Forseti hringir.) Þær eiga að hafa frumkvæði ef tími leyfir og þær eiga að horfa til framtíðar.