146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Í gær horfði ég á Kastljósið á RÚV. Þar komu Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger og ræddu verkefni sitt Handan fyrirgefningar. Það vakti mig sannarlega til umhugsunar og margar spurningar kviknuðu. Hvað get ég og aðrir hv. alþingismenn gert til þess að draga úr líkum á kynferðislegu ofbeldi, ofbeldi sem hefur verið langvarandi og haft skaðleg áhrif á þolendur en einnig gerendur? Þetta er samfélagslegt mein sem virðist ótrúlega algengt. Þolendur og gerendur eru margir. Fræðsla og opinská umræða er lykilatriði. Við verðum að þora að ræða eðlileg samskipti. Þögn er ekki samþykki. Það má ekki gera hvað sem er svo lengi sem ekki er sagt nei.

Strax og börn og unglingar hafa þroska til þarf að ræða þessar samskiptareglur þegar kynlíf og samskipti af kynferðislegum toga eiga í hlut. Við búum við að klámvæðing og hlutgerving kvenna hefur skaðleg áhrif. Við því þarf að sporna. En mikilvægast er að allir, ekki síst ungt fólk, sé frætt um að veruleikinn sem birtist þeim á tölvuskjánum er ekki spegill raunverulegra eðlilegra samskipta þegar kynferðislegt samneyti er sýnt. Við sem löggjafi verðum að vera vakandi fyrir samfélagsbreytingum og bregðast við þeim. Við þurfum að setja reglur t.d. um svokallað stafrænt kynferðisofbeldi, en það þarf að ganga lengra. Hefðbundin viðhorf okkar eru of karllæg og það smitast yfir í löggjöf og umfjöllun um kynferðislegt ofbeldi þar sem þolendur eru oftast konur.

Frú forseti. Á herðum (Forseti hringir.) okkar hv. alþingismanna hvílir sú skylda að lögin styðji við markmið um að draga eins mikið úr kynferðislegu ofbeldi og unnt (Forseti hringir.) er og varðveita kynfrelsi, kvenfrelsi og friðhelgi einkalífs allt í senn.