146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er fullt tilefni til þess að hvetja þingmenn, sér í lagi þingmenn stjórnarliða, til þess að leggja við hlustir. Almenningur kemur ekki oft hér fyrir utan til að mótmæla, en það eru boðuð mótmæli á fimmtudaginn nk. þar sem á að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að hverfa ekki frá þeim loforðum Bjartrar framtíðar að fara ekki í einkarekstur á heilbrigðiskerfinu. Ég vona svo sannarlega að þið þingmenn hv. meiri hlutans leggið við hlustir þegar almenningur vill veita okkur aðhald. Það er mikilvægt, þó svo að við séum hér inni, að við áttum okkur á því að við erum hér alltaf í umboði almennings, ekki í umboði flokkanna okkar, ekki í umboði okkar sjálfra, heldur í umboði almennings. Mjög mikilvægt.

Það er líka mjög mikilvægt að þegar okkur er veitt gagnrýni þó að okkur finnist hún stundum óvægin frá fjölmiðlum að við leggjum við hlustir. Það er mjög mikilvægt þegar einstaklingar berjast fyrir þá aðila sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér að við leggjum við hlustir. Við eigum ekki að níða þá sem reyna að vekja okkur til vitundar um veruleika sem oft er okkur fjarlægur. Við eigum að leggja við hlustir og við eigum að muna að þegar Píratar hafa fengið úrskurðað frá almenningi í gegnum skoðanakannanir að langflestir, 90% landsmanna, vilja að við forgangsröðum í heilbrigðiskerfið þá eigum við að leggja við hlustir þó að við séum hér inni. Það er okkar hlutverk. Við erum hér í umboði almennings. Við erum fjárgæslumenn (Forseti hringir.) almannahagsmuna og almannapeninga, peninga sem fólk hefur borgað af laununum sínum (Forseti hringir.) og við eigum að passa vel upp á að fara vel með. Leggjum við hlustir.