146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Væntanleg lagasetning um jafnlaunavottun og jafna stöðu kynja á launamarkaðinum hefur á undanförnum dögum náð heimsfrægð, sem í sjálfu sér væri ekki ónýtt nema vegna þess að slík lög eru ekki til og slíkt lagafrumvarp hefur ekki verið lagt fram hér á þingi og reyndar stendur ekki til að leggja það fram. Það lætur ekkert á sér kræla og velferðarráðherra hefur reyndar sagt að slík lagasetning sé ekki í bígerð, það sé betra að koma þessu inn í kjarasamninga en að lögbinda þetta. En ráðherrann talar reyndar tveim tungum í því máli, segir eitt hér heima á Íslandi og annað í útlöndum. Síðast í morgun var haft eftir hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra í norskum fjölmiðlum að hann vildi hvetja Norðmenn til að feta í sín fótspor og lögfesta jafnlaunavottun á Íslandi.

Mig langar til að beina orðum mínum til formanns velferðarnefndar Alþingis og spyrja: Hver er afstaða formanns velferðarnefndar til jafnlaunavottunar? Mun formaðurinn beita sér fyrir því að lögfesta jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði og jafnvel beita velferðarnefndinni til þess ef á þarf að halda, ef ráðherrann kemur sér undan því? Í öðru lagi vil ég spyrja þingmanninn og hv. formann velferðarnefndar um fátækt og þá hvernig stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hyggst, ef hann hefur það í hyggju á annað borð, að bregðast við fátækt í landinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, sem eru reyndar ekki mjög ítarleg, er áætlað að um 7–9% þjóðarinnar búi við fátækt. Það eru 25–30 þús. einstaklingar. Af þeim búa um 5 þús. við sára fátækt, nánast í örbirgð, þ.e. þeir geta ekki eldað sér sómasamlega máltíð a.m.k. annan hvern dag yfir árið. Þetta eru háar tölur, allt of háar tölur. Hvaða áætlun hefur stjórnarmeirihlutinn uppi til að draga úr fátækt á Íslandi og hvernig hyggst formaður velferðarnefndar Alþingis beita sér í þeim málum eða nefndin eftir þörfum?