146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir umræðuna. Við erum í fyrsta sæti í jafnrétti samkvæmt mælingu World Economic Forum sem er árangur sem við eigum að vera stolt af. Við ætlum að halda áfram að vera leiðandi. Lögin um jafnrétti eru tæki til að ná fram launajafnrétti.

Það eru tveir þættir í íslensku samfélagi þar sem þarf að horfa sérstaklega til þess að ná fram jafnrétti. Kynbundið ofbeldi og vinnumarkaður, launajafnrétti, fleiri konur í forystu í atvinnulífinu. Markmið laganna er að útrýma óútskýrðum launamun, enda hefur verið ólöglegt um hálfrar aldar skeið að mismuna fólki eftir kyni. Fullt launajafnrétti myndi það teljast þegar konur og karlar væru að jafnaði með jöfn laun á lífsleiðinni. Enn er langt í land með að það náist. Þar koma til ýmsir þættir og óútskýrður launamunur er aðeins einn þeirra. Svo að já, ég mun beita mér fyrir því.

Síðan var ég beðin um að tala um fátækt. Ég hef til margra ára í starfi mínu í leikskólum í efra Breiðholti unnið með fátækum. Ég hef alltaf og mun alltaf tala fyrir þverfaglegri teymisvinnu í kringum fólk sem glímir við fátækt. Hér á Íslandi eigum við stórt velferðarkerfi sem sinnir félagslegri þjónustu, heilbrigðisþjónustu, skólaþjónustu, málefnum aldraðra, fatlaðra, barnavernd, auk þeirrar þjónustu sem veitt er í þágu þeirra sem eru vistaðir á stofnunum öðrum en sjúkrahúsum og öldrunarstofnunum. Samspil og virkni milli þessara kerfa er lykilatriði í að vinna gegn fátækt. Við megum ekki leyfa að fólk týnist á gráu svæðunum á milli kerfa og leiðast út í fátækt. Þegar við tölum um fátækt er afar mikilvægt að tala um ábyrgð ríkis og sveitarfélaga í að efla svokölluð virkniúrræði, þar á meðal gagnvart þeim sem mest þurfa á aðstoð að halda svo að þeim reiði betur af. Góð dæmi um slík verkefni sem hafa reynst vel eru tilraunaverkefnið „Menntun núna“ og „TINNA“, (Forseti hringir.) verkefni sem ég hef þekkingu á þar sem þau voru unnin hjá okkur í Breiðholti. Bæði verkefnin hafa að markmiði (Forseti hringir.) að valdefla fólk og gefa því tækifæri til reisnar. Ég vil beita mér (Forseti hringir.) sem formaður velferðarnefndar fyrir því að haldið verði áfram að þróa mikilvægt samstarf eins og þetta í þágu (Forseti hringir.) þeirra sem mest þurfa á að halda.