146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni fráleita fjárhagsstöðu háskóla í landinu einu sinni enn. Ég átti hér orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir ekki svo löngu og þá kom í ljós að engar aukafjárveitingar verða þar gerðar, engin fjáröflun á borði handa háskólum landsins. Staða Háskóla Íslands er afleit, það vita allir. Ég nefndi í þessum viðræðum við ráðherra sparnað upp á tugi milljóna bara í einni stofnun. Það er ekki kyrrstaða sem er í gangi núna heldur fullkominn niðurskurður í yfirlýstu góðæri.

Ég er með undir höndum nýja ályktun frá stúdentaráði Háskóla Íslands. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa úr henni:

„Stúdentaráð Háskóla Íslands leggst alfarið gegn þeirri aðhaldsstefnu stjórnvalda sem hefur verið ríkjandi í málefnum háskólans undanfarin ár. Sú stefna hefur leitt til verulegrar undirfjármögnunar háskólans. Það hefur alvarleg áhrif á gæði náms sem sést m.a. á niðurfellingum 50 námskeiða við skólann á þessu ári vegna kröfu stjórnvalda um aðhald. Aðgerðirnar brjóta gegn stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem kveðið er á um að „háskólar á Íslandi verði studdir í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni.““

Það stendur hér enn fremur:

„Íslenskir háskólar fá um helmingi lægri framlög á hvern háskólanema en háskólar annars staðar á Norðurlöndum. Enn eru framlög á hvern nemanda í íslensku háskólakerfi lægri en þau voru fyrir áratug.“

Undir þetta ættum við öll að taka, eða með orðum stúdentaráðs: Öflugt menntakerfi er grunnstoð framsækinna og samkeppnishæfra nútímasamfélaga. Ég trúi því að við séum öll sammála um það að fjársveltir háskólar eru ávísun á samfélagsslys.