146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[14:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að þetta var talsvert rætt. Reyndar er rétt að halda því til haga að hér við umræður eða framsögu málsins á sínum tíma voru ekki nefndar neinar kostnaðartölur. Það var ekki fyrr en nefndin kallaði eftir kostnaðartölum að þær bárust. Þar var gert ráð fyrir, eins og þingmaðurinn nefnir réttilega, u.þ.b. 120 millj. kr. kostnaði á ári og síðan, ef ég man það rétt, 12 millj. kr. í stofnkostnað, einskiptiskostnað. Þetta var mikið rætt í nefndinni og kallað eftir frekari útfærslu á því. Nefndin var sammála um að uppskipting ráðuneytanna ætti ekki að þurfa að fela allt það í sér sem þar var gert ráð fyrir þannig að niðurstaðan er sú, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að gert er ráð fyrir ráðuneytisstjóra og ritara hans. Ég er ekki alveg með töluna í kollinum en mig minnir, og það verður að hafa með þeim fyrirvara, að þessir tveir starfsmenn kosti 30–35 millj. kr. á ári auk stofnkostnaðarins sem ég nefndi áður. Það kom líka mjög skýrt fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra, aðspurður af einum nefndarmanni í þinginu, að þessar 120 millj. kr. væru kostnaður sem ekki hefði verið reiknað með og væri ekki inni í myndinni. Þetta staðfestir meiri hluti nefndarinnar.