146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[14:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það styttist í að ég fái nýja sófasettið í íbúðina sem ég flutti inn í nýlega. Við það tilefni reikna ég með að bjóða til innflutningsveislu. Ef það mæta aðeins fleiri en ég reikna með býst ég ekki við að ég fari að skrúfa sundur sófasettið og stækka það aðeins til að búa til pláss heldur fæ ég gestina bara til að koma sér betur fyrir í því setti sem er fyrir hendi. Eins ef ég held lítið fjögurra manna matarboð þá reikna ég ekki með að taka settið aftur sundur og saman og láta það þannig rúma þá rassa sem ég þarf koma fyrir í það skiptið, af því að ég veit af fenginni reynslu eftir marga flutninga að það að skrúfa mublur sundur og setja þær saman of oft er ekki endilega besta leiðin til að fara vel með þær.

Sama finnst mér með breytingar á Stjórnarráðinu af þessu tagi. Það er verið að nálgast verkefnið á eins gamaldags hátt og hugsast getur. Það er verið að styrkja múrana á milli ráðuneytanna frekar en að fletja þá út, eyða þeim alveg. Það er miklu frekar til vansa. Ég hefði haldið að sú ríkisstjórn sem nú situr og þykist vera nútímaleg í vinnubrögðum myndi frekar velja að setja sér það langtímamarkmið t.d. að Stjórnarráð Íslands væri rekið á einni kennitölu, að við séum ekki alltaf að rembast við það að skipuleggja þennan litla vinnustað sem Stjórnarráðið er með rétt rúmlega 500 starfsmenn í einhverjar átta til ellefu einingar, eða hvað það er sem þarf til að Sjálfstæðisflokkurinn fái nógu mörg sæti, svo að það að passi undir hæstv. ráðherrarassana.

Ég hefði haldið að stjórnarráð á einni kennitölu væri svo sjálfsagt mál að ríkisstjórnin væri þess vegna búin að hrinda því í framkvæmd nú þegar af því að síðan getur ríkisstjórnin skipt með sér verkum eins og hún vill, eins og hún gerir í dag, eins og hún gerir í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna í ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Þar tekst nógu vel til til þess að ráðherrann leggur til að hið nýja ráðuneyti taki yfir sömu verkþætti.

Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, meginsjónarmið að baki breytingunni samkvæmt tillögu ráðherra. Þar stendur:

„Markmiðið með stofnun dómsmálaráðuneytis annars vegar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis hins vegar er fyrst og fremst að skýra verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og skerpa þar með hina pólitísku forystu í málaflokkum sem undir hvort ráðuneytið falla.“

Svo stendur aftar í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að stjórnarmálefni innanríkisráðuneytisins muni skiptast á milli dómsmálaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis með sama hætti og þau skiptast nú á milli dómsmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra samkvæmt forsetaúrskurði nr. 2/2017, um skiptingu starfa ráðherra.“

Hver er þá tilgangurinn með því að stofna nýja kennitölu utan um nákvæmlega sömu verkefni? Þjónar það einhverjum tilgangi öðrum en að auka kostnað ríkisins við að halda úti stoðþjónustu í nýrri stofnun sem heyrir undir ráðherrann?

Þar verð ég að víkja sérstaklega að hæfileikum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem nær að losna við 500 millj. kr. kostnað á kjörtímabilinu sem kemur fram í kostnaðarmati, sem ég reiknaði með að væri unnið á faglegum forsendum. Meiri hlutinn losnar við þennan kostnað með því að segja í áliti, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að með samþykkt þingsályktunartillögunnar sé ekki verið að samþykkja frekari útgjaldaaukningu vegna uppskiptingarinnar.“

Það mætti kannski benda hæstv. fjárlaganefnd á þessi vinnubrögð. Við gætum þá í desember samþykkt ályktun um að því sé beint til stofnana ríkisins að auka ekki útgjöld þrátt fyrir aukin verkefni. Ef það er vilji þingsins og kemur fram í greinargerð þá hlýtur það að standa heima.

Mér finnst þar að auki ekki vikið alveg réttu máli að þeim breytingum sem urðu hér eftir hrun. Í greinargerð ráðherrans segir, með leyfi forseta, um sameiningar ráðuneyta á kjörtímabilinu 2009–2013:

„Rökin að baki sameiningunni voru m.a. viðleitni þáverandi stjórnvalda til hagræðingar í ríkisrekstri í kjölfar efnahagshrunsins og var öðru fremur horft til hagræðingar og mögulegrar samlegðar í stoðþjónustu ráðuneytanna.“

Þetta er svo sem rétt svo langt sem það nær, en það er ekki hárrétt nema við gleymum hruninu, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, tillögum þingmannanefndar um niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem kom fram að eitt af því sem spilaði inn í hrunið var veik og klístruð stjórnsýsla, m.a. vegna þess að við vorum með örráðuneyti yfir viðskiptamálum sem var stærsta kerfisáhættan í aðdraganda hrunsins. Hefði ekki verið betra að hafa öflugra stjórnarráð þar sem ráðherrar hefðu getað kallað til sérfræðiþekkingu úr þeim 500 starfsmanna potti sem vinnur þar frekar en að þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra hafi setið einn og yfirgefinn uppi á hanabjálka og ekki getað rönd við reist þegar fjármálakerfið óð hér yfir allt í stjórnsýslunni?

Mér þykir í sjálfu sér ágæt hugmynd að nota ráðherrastóla til að leggja áherslu á mál. Þó hefði ég reyndar ekki endilega valið dómsmál sem slík sem áhersluatriði. Mér hefði t.d. þótt fara ágætlega á því að sjá ráðherra loftslagsmála eða ráðherra barna, eða ráðherra sem ætti að starfa í tvö ár til að hrinda í framkvæmd alvöruaðgerðum gegn kynferðisofbeldi. Það hefði verið bragur á því. Nei, í staðinn er rykið dustað af elstu ráðuneytishugmyndinni, þetta er ráðuneyti frá 1917, þetta er 100 ára hugmynd, undir því yfirskyni að verið sé að skýra mörk á milli málaflokka.

Ef við blöðum aðeins í forsetaúrskurði um skiptingu málefna þá sjáum við að ásamt með dómsmálum fer hæstv. dómsmálaráðherra með sjómælingar og sjókortagerð. Jú, þetta er framkvæmt af Landhelgisgæslunni sem á alveg heima undir dómsmálum svo sem, en hefur verið skoðað að taka þessa kortagerð og færa undir Landmælingar, kortargerðastofnun ríkisins? Hérna eru líka í 17. lið áfengismál sem ekki heyra undir annað ráðuneyti. Ég sé ekki alveg dómsmálavinkilinn í því. Svo er hérna fasteignaskrá og þar með Þjóðskrá Íslands. Það hefur komið inn athugasemd frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að þetta eigi einmitt ekki heima undir dómsmálunum. Af hverju er tækifærið ekki notað til að hlusta á sveitarfélögin og færa fasteignaskrána eins og þau biðja um undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, helst innan þess sem í dag er sama ráðneyti en fer undir ráðherra sem sveitarfélögunum þykir eðlilegra að fari með þessi mál, enda er fasteignaskrá sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga og er eitt af því stærra sem Þjóðskrá sinnir?

Svo má nefna aðra þætti sem eiga kannski óljósar tengingar við dómsmálin eins og happdrætti, talnagetraunir og trúfélög. Ekkert af því er endilega dómstólamál. Verkaskipting ráðuneytanna verður því alveg jafn loðin og óljós og áður, enda byggir hún á nákvæmlega sama texta og tillaga ráðherra heldur því fram að hún sé að bregðast við, að skipti verkum of óljóst á milli manna.

Í greinargerð ráðherrans er talað um sögulega hefð fyrir sérstökum ráðuneytum dómsmála og vikið að því að flest lönd eigi sér sérstakt dómsmálaráðuneyti, til að mynda öll hin norrænu ríkin. Það hefði reyndar verið ágætt að benda á að mörg af þeim ríkjum eru með þetta kerfi sem ég er búinn að nefna, það er bara ein kennitala utan um Stjórnarráðið þannig að breytingar á verkefnum eru miklu liprari og ekki bundnar jafn mikið í steinsteypu og gamaldags vinnubrögð og lögð eru til í þessari tillögu. En gott og vel.

Öll hin norrænu ríkin eru með sérstakt dómsmálaráðuneyti. Sænska dómsmálaráðuneytið er með 400 starfsmenn og það norska sömuleiðis. Í öllu íslenska Stjórnarráðinu starfa 530 starfsmenn í 484 stöðugildum. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að hin ríkin í kringum okkur geta leyft sér að vera með þetta í sérráðuneyti.

Frú forseti. Ég harma það virkilega að ríkisstjórnin hafi ekki ákveðið að nýta þetta tækifæri til að færa starfsemi Stjórnarráðs Íslands í nútímalegt horf. Það að hafa sveigjanleika til að skipa ráðherrum til verka eins og ríkisstjórn sýnist hverju sinni er ágætt markmið en því er ekki náð með svona tillögu. Þessi tillaga er bara Stjórnarráðið eins og fólkið nálgaðist það árið 1969 þegar fyrstu lög um Stjórnarráð voru sett. Þessi tillaga er aukinheldur sérstaklega vandræðaleg því að hún snýst ekki aðeins um að tryggja stól undir ráðherra eins tiltekins flokks, af því að sá stóll er þegar fyrir hendi, hún snýst um það að þeir tveir ráðherrar sem deila með sér ráðuneyti geta ekki deilt með sér starfsfólki þótt samflokksmenn séu. Það lofar ekki góðu um stjórn landsins ef æðstu yfirmenn stjórnsýslunnar ráða ekki einu sinni við jafn einfalt verkefni og að deila verkum 80 starfsmanna sem undir þá heyra.

Þetta er það sem ráðherrarnir vilja. Þetta er það sem meiri hlutinn vill þó að það muni leiða af sér kostnað og þó að það muni halda Stjórnarráði Íslands í því horfi að þar séu ráðuneyti of mörg og of lítil. Það er þá vilji þeirra sem að þessu standa.