146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[14:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er í rauninni sama hvernig við skipuleggjum Stjórnarráðið. Ráðherra og það sem undir hann heyrir — ráðuneytið er skrifstofa ráðherra, hvort sem það er undir kennitölu hans eða eining innan eins stjórnarráðs. Það er alveg eðlilegt að hann hafi með sér einhverja æðstu embættismenn, svo sem ráðuneytisstjóra eða ígildi þess ef skipulaginu væri breytt. Það er eðlilegur kostnaður eins og allt praktískt í kringum hvern ráðherra.

Það er kannski ágætt að ég fái að spyrja þingmanninn fyrst hann situr í nefndinni. Það liggur fyrir kostnaðarmat upp á 120 milljónir á ári en meiri hluti nefndarinnar talar það frá sér. Hefur verið gert kostnaðarmat til að styðja það? Eða er það bara skoðun meiri hlutans?

Svo af því þingmaðurinn nefndi það að dómsmálin væru sérstaklega mikilvæg þessa dagana, vegna þess að dómstólar teldu sig hafna yfir upplýsingalög og stjórnsýslulög og allt hvað eina. Kannski er þingmaðurinn bjartsýnni en ég. Telur hann að núverandi ráðherra muni eitthvað tuska dómstólana til? Verður einhver breyting á því? Það sem ég hef séð til hæstv. ráðherra fær mig til að efast um að það muni mikið gerast, hvort sem hún hafi sérstakt ráðuneyti undir sér eða deili því með öðrum ráðherra.