146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[14:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þessar 107 millj. kr. er það ráðuneytisstjórinn, skrifstofustjórinn, en líka ritari ráðuneytisstjóra, rekstrarstjóri, bókhald og framkvæmd fjárlaga, upplýsingafulltrúi og tveir sérfræðingar. Ég var erlendis þegar málið var tekið út úr nefndinni. Mér skilst, ef ég skil nefndarálitið, að það séu bara þessir tveir starfsmenn en ekki allir starfsmennirnir. Ég heyrði í síðustu viku eða þarsíðustu hæstv. forsætisráðherra Bjarna Benediktsson segja: Þetta fer ekki áfram með svona miklum kostnaði. Ég held því að minni hlutinn hafi náð að rúlla til baka einhverju af því sem var orðið svolítið mikið ákall frá ráðuneytunum um starfsmenn. En það eru alla vega þessir aðilar.

Hver var aftur síðari spurningin? Nú man ég það ekki alveg í svipinn. (AIJ: … traust til dómstólanna.) Já, varðandi dómstóla, það veit ég náttúrlega ekkert um. En þetta er rosalega mikilvægur málaflokkur. Það kemur fram í lögum um Stjórnarráð Íslands að eðlislík málefni skuli heyra undir sama ráðuneytið. Það er því algerlega samkvæmt anda laganna eins og ég skil það að skipta þessu upp í ráðuneyti, ekki bara ráðherra heldur ráðuneyti. Það að vera með ráðuneyti gefur því miklu meira og sterkara umboð til þess að fara á eftir málum, sem ég tel mikilvægt að sé gert í báðum málaflokkunum og tel að það að skapa ákveðið sjálfstæði þar muni búa til svigrúm fyrir það. Hvort það svigrúm verður notað veit ég ekki.