146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:11]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðu hennar. Ég skildi hana þannig að hún væri í grunninn sammála breytingunni og fagnaði henni en hefði ýmsar athugasemdir við ýmislegt í þessu máli.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann nánar út í afstöðu hennar af því að hún kom inn á mál sem við höfum oft rætt hér og hún hefur ábyggilega rætt það töluvert oftar hér í gegnum árin, þ.e. um stöðu Alþingis, sem hv. þingmaður kom vel inn á hér. Af því að við búum nú við það að vera með ríkisstjórn skipaða flokkum sem uppgötvuðu allt í einu eftir kosningar að það væru engir peningar til í þessu landi til nokkurra umbóta, telur hv. þingmaður að fjármunum okkar sé best varið á þennan hátt ef breyta á stjórnskipuninni, þ.e. að breyta kerfinu hérna? Er þessum fjármunum best varið í að aðskilja þessi ráðuneyti og fjölga ráðherrum með þeim hætti sem hér er lagt til? Eða er það brýnna mál að efla sjálfstæði Alþingis, að efla þá starfsaðstöðu og sérfræðiaðstoð sem þingmenn þurfa svo sárlega á að halda og gætu nýtt sér? Ætti það kannski að vera framar í forgangsröðinni en þetta mál? Telur hún að þetta mál sé einlæglega sprottið af sama áhuga og hv. þingmaður hefur gagnvart uppskiptingu ráðuneyta eða kemur fjöldi ráðherra þar eitthvað inn í?