146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:43]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt merkilegt að með þessum röksemdafærslum í þingsályktunartillögunni, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason nefnir, er í raun verið að ýja að því að þessari markvissu forystu í málaflokknum hafi alls ekki verið náð í þeirri ríkisstjórn sem hæstv. forsætisráðherra sat í, þá sem fjármálaráðherra. Hún hafi ekki náðst á síðasta kjörtímabili. Þá velti ég því fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að þessa skoðun megi heimfæra upp á eingöngu þann málaflokk sem um ræðir hér varðandi innanríkisráðuneytið eða hugsanlega jafnvel einhver önnur málefni eins og t.d. velferðarráðuneytið, hvort það gæti þá verið næsta skref að draga þá markvissu forystu í þeim málaflokkum líka í efa af hæstv. forsætisráðherra.

Mér finnst þessi röksemdafærsla áhugaverð og mjög loðin vegna þess að það er í raun og veru ekkert meira sem fylgir þessari fullyrðingu í greinargerð hæstv. forsætisráðherra, það er ekkert meira kjöt á beinunum. Ég velti því fyrir mér, og væri gaman að heyra sjónarmið hv. þingmanns í því, hvort draga megi þá ályktun að í hinum ráðuneytum, eins og velferðarráðuneytinu sem hefur tvo ráðherra undir, sé um að ræða veikari forystu í þeim málaflokkum ef rétt skal lesið úr þessari greinargerð.