146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá stakk þetta mig þegar ég las þennan kafla í röksemdafærslu ráðherra varðandi breytingarnar sem er undir yfirskriftinni „Meginsjónarmið að baki breytingunni“, þ.e. að þarna hafi ekki verið nægilega góð forysta í ráðuneytinu og það sé ástæðan fyrir því að gera þurfi á þessu breytingar.

Ég er að hluta til sammála þessu því að við munum hvernig ástandið í innanríkisráðuneytinu var um tíma vegna spillingarmála, vegna þeirrar uppákomu sem var vegna lekamálsins. Ráðuneytið var um lengri tíma lamað, það er hægt að segja að það sinnti ekki þörfum þingsins, það svaraði ekki kalli þingsins og ekki almennings heldur í ýmsum málum. Á þeim tíma lá það alveg ljóst fyrir að sá ráðherra sem þar var hafði ekki yfirsýn yfir það sem hann átti að gera eða gat veitt ráðuneytinu nægilega trygga forystu. Það gera allir sér grein fyrir því. Á endanum vék sá ráðherra úr ráðuneyti eða varð að segja af sér vegna þeirra mála sem þar komu upp. Eftir það breyttust hlutirnir til batnaðar. Ég vil nú meina það að það hafi verið mun betra í kjölfarið, þar hafi komið betri og tryggari forysta í ráðuneytið en hafði verið. Þess vegna er ég aðeins undrandi á þeim köldu kveðjum sem eru þarna sendar af hálfu forsætisráðherra.

Auðvitað geta fleiri ráðuneytið verið þarna undir. Ég nefndi það áðan að hér er vísað til hefða, að þetta hafi alltaf verið svona einhvern veginn, það var stofnað dómsmálaráðuneytið 1917 og því skuli þetta bara vera. Hérna vorum við einu sinni með sérstakt landbúnaðarráðuneyti, sérstakt sjávarútvegsráðuneyti, sérstakt efnahagsráðuneyti og fullt af ráðuneytum sem voru mönnuð með sirka 20 mönnum að bílstjórum meðtöldum, þar sem lítil sérfræðiþekking var innan hvers ráðuneytis (Forseti hringir.) og stoðþjónusta sem þar átti að vera var ekki nægilega góð. Það var ein af (Forseti hringir.) ástæðunum fyrir því að sameina ráðuneyti á sínum tíma.