146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að segja að ég er ákaflega þakklátur hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Birni Val Gíslasyni, fyrir að hafa ekki lengt umræðuna og býð nú ekki í ef hann hefði farið út í þá sálma. En að öllu gamni eða tilraunum til gamans slepptum verð ég að segja að mér finnst þessi umræða á margan hátt hafa verið ákaflega gagnleg og að mörgu leyti mjög góð. Umræðan fór kannski á víðara svið en nákvæmlega um tillöguna, en á hverjum tíma hljótum við alltaf að velta því fyrir okkur hvernig við getum best fyrir komið stjórnsýslu, hvernig við getum best fyrir komið ráðuneytum og hvernig við getum best tryggt í senn skilvirkni, fagmennsku og árangur. Okkur sýnist kannski sitt hverju um það. Við getum haft mismunandi sjónarmið upp um það. Við vitum það á við í þessum fræðum eins og öllum öðrum að tíðarandinn breytist. Einn daginn er lausnarorðið að hafa stórar einingar, annan daginn eru það minni einingar, svo er það blanda af þessu öllu sem kemur til greina.

Ég held að viðleitnin hér sé sú að verið er að reyna að bæta vinnubrögð. Mér finnst nú dálítið langt seilst að lýsa því yfir að innanríkisráðuneytið hljóti að hafa verið í molum ef menn vilja reyna að gera betur. Ég skil nú ekki alveg þann málflutning.

Þá hefur líka verið rætt hér um kostnað og kostnaðarmat. Hér hefur það verið rætt í þaula og margendurtekið að kostnaðurinn við þetta sé hálfur milljarður á ári. Það er einfaldlega rangt. Það er margbúið að fara yfir það. Það er margbúið að benda á það. Það var rætt í nefndinni. Það er rætt í nefndarálitinu. Það hefur verið rætt af forsætisráðherranum. Ég bið menn um að endurtaka það ekki, það er ekki nóg að endurtaka nógu oft það sem ekki er rétt til þess að það verði satt. Mér finnst nú eiginlega ekki til sóma að beita slíku tali.

Þá komu líka fram skiptar skoðanir um málið. Ljóst er að sumir hv. þingmenn sem hér tóku til máls telja málið bara nokkuð gott, aðrir telja það afleitt. Ég held að við eigum ekki að slá það út af borðinu að auðvitað er pólitík í öllu því sem gert er. Skárra væri það nú. Skipan ráðuneyta og hvernig þau starfa og hverjir eru þar er hluti af pólitík. Mér finnst svolítið sérkennilegt ef menn ætla að vera hér fullir af heilagri vandlætingu yfir því að það gæti hugsanlega leynst einhver pólitík í málinu. Það finnst mér svolítið sérkennilegt.

Ég held að á endanum geti þetta orðið til góðs og verði til góðs. Ég endurtek því að ég er þakklátur fyrir þessa umræðu og ég er alveg til í það með hv. þingmönnum að ræða á vettvangi þingsins um stjórnskipulag Stjórnarráðsins, um stjórnskipulag þingsins. Allt er breytingum undirorpið. Við getum alveg örugglega gert betur. En þá held ég að við eigum líka að reyna að hefja okkur pínulítið upp yfir dægurþrasið og ræða þetta á breiðum grundvelli.

Hér hefur verið rætt um þingið sjálft. Og nefndir þingsins, sem dæmi. Þar held ég að mætti vera miklu meiri sveigjanleiki. Þar eru menn mjög fastir í hefðum. Að stærðin leysi allt held ég að sé í besta falli varasöm trúarsetning. Það er ekkert sem segir að mörg ráðuneyti með öflugri stoðþjónustu, öflugum sérfræðingum, ég tala nú ekki um með sérfræðingum sem hægt er að nýta á milli ráðuneytanna eins og mikið er rætt um, geti ekki veitt sínum málaflokkum kröftuga forystu og verið mjög góð í sínum störfum. Það er einn partur af framþróun í Stjórnarráðinu, þ.e. að brjóta upp þennan sílóahugsunarhátt á milli ráðuneyta, í hvaða formi þau kunna að vera. Ég held að margt sé hægt að gera betur. Við eigum alltaf að vera að reyna að gera betur. Mér finnst það ekkert endilega vera áfellisdómur yfir því sem á undan hefur farið þó að við sameinumst um að gera betur í dag en í gær, mér finnst það nú bara mjög skynsamlegt.

En öfugt við hv. síðasta ræðumann ætla ég ekki að tefja umræðuna og læt þessu lokið að sinni.