146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Öfugt við hv. ræðumann hér þá ætla ég einmitt að tefja umræðuna því að ég held að umræða sé alltaf til góðs og sé gott að ræða málin.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í ýmislegt í hans ræðu. Hv. þingmaður kom inn á að það væri oft mikil breyting á tíðaranda eða skoðanir breyttust á því hvað væri best í stöðunni, hvort ráðuneyti ættu að vera stór eða lítil eða hvernig það væri. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi lesið rannsóknarskýrslu Alþingis, þá úttekt sem þá var gerð á stjórnsýslunni og hvort hann hafi verið sammála þeirri úttekt á þeim tíma og jafnvel skipt um skoðun ef hann hafi verið sammála henni því augljóst er að hv. þingmaður virðist ekki vera það núna. Ég spyr á hverju hann byggi þá skoðun sína sem glögglega kemur fram í máli hans, þótt hann hafi ekki sagt það beint, að sú skoðun sem þar kemur fram sé röng því að það sem verið er að gera núna er þvert á þá skýrslu. Ég gat ekki skilið hv. þingmann betur en hann talaði um að skoðanir breyttust eftir tíðaranda.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að ég sit ekki með honum í nefndinni, um kostnaðarmatið því hann fullyrðir að kostnaðarmatið sem lagt hafi verið fram sé rangt. Hver er nákvæmlega kostnaðurinn á bak við þetta? Ef hann gæti upplýst okkur og helst lagt fram gögn fyrir okkur hin sem ekki sitjum í nefndum og fáum aðgang að þessu.