146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:58]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verða að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum ef hv. þingmaður byggir kostnaðarmat sitt á orðum forsætisráðherra í andsvörum við spurningum hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur. Ég sat hér í þessum sal og hlustaði á þau andsvör og fannst þau byggja á afneitun og engum staðreyndum. Það má vel vera að einhvers staðar liggi reikningurinn fyrir, kostnaðarreikningurinn. Hv. þingmaður gat ekki nefnt þá tölu hér. Ég hef ekki heyrt þá tölu. Ef maður ætlar að segja að eitt mat sé rangt þá þarf maður eiginlega að svara því með öðru. Það eru nútímaleg og vönduð vinnubrögð.

Sjálfur hef ég ekki myndað mér mjög sterka skoðun á því hvort það sé rétt að skipta upp ráðuneytinu. Ég ætla bara að segja það alveg eins og er. Ég er að spyrja hv. þingmann og hef spurt fleiri hér í dag vegna almennra orða um stjórnsýsluna og áhuga míns á vönduðum vinnubrögðum. Það sem mér finnst athugunarvert og ég heyri óm af því í orðum hv. þingmanns er að við erum farin að horfa á rannsóknarskýrsluna eins og eitthvað sem var bara gert þarna á þessum tíma, þetta var nú bara svona og svo breytist allt og lífið heldur áfram.

Ég held að þegar rannsóknarskýrsla Alþingis var gerð að þá höfum við í fyrsta skipti svo ég man eftir, og er ég sagnfræðingur að mennt án þess að ég sé að setja mig á háan hest, sest niður sem samfélag, Alþingi hafi sest niður og rýnt alveg inn í kviku hvar væri ekki nógu vel búið um hnútana, hvar og hvernig mætti betur standa að málum, og hvar væri úrbóta þörf. Það var auðmýkt í gangi í samfélaginu. Það var auðmýkt í þessum sal. Hv. þingmenn voru tilbúnir til að horfa á sjálfa sig, líta í eigin barm. Það að við gerum svo ekkert með það er miður. Það að við lítum á þetta bara eins og (Forseti hringir.) hverja aðra skýrslu sem breytist eftir tíðarandanum er miður. (Forseti hringir.) Aftur ég er ekki að andmæla þessu máli, ég er aðeins að horfa á (Forseti hringir.) hvernig við búum um hnútana í stjórnsýslunni almennt og fagleg vinnubrögð.