146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

Þjóðhagsstofnun.

199. mál
[16:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda kærlega fyrir þetta frumvarp. Þetta lítur mjög vel út og ekki er vanþörf á miðað við þær aðstæður sem maður hefur glímt við í vinnu við t.d. fjárlög og í fjárlaganefnd að undanförnu þar sem hefur klárlega vantað frá flestum þeim aðilum sem hafa komið inn með umsagnir um stöðu efnahagslífsins ákveðna sviðsmyndagreiningu eða tal um áhættuþætti. Það var bara Viðskiptaráð sem nefndi varðandi fjármálastefnuna að ef það væri prósenti lægri hagvöxtur værum við komin í neikvæða afkomu ríkissjóðs. Það var eina sviðsmyndagreiningin sem við fengum hjá öllum ummælendunum.

Ég sé einmitt fyrir mér að Þjóðhagsstofnun gæti verið ákveðinn aðili sem sér um samantektir, sem sagt óháður aðili um stöðu þjóðarbúsins sem væri mjög gott fyrir stjórnmálin í heild sinni, til að mynda nýja stjórnmálaflokka sem eru að reyna að komast inn í það flókna kerfi sem við búum við. Það er langt frá því að vera einfalt að ná að fylgjast með t.d. því að þróun lífeyrisskuldbindinga á næstu árum varðandi B-deildina geta dottið í að vera 13 milljarða aukabaggi á ríkissjóði. Þetta er eitthvað sem ætti að liggja vel fyrir, bæði almenningi og nýjum stjórnmálaöflum sem eru að undirbyggja og skipuleggja hvað þau ætli að gera í kosningum. Þá vita þau betur hvað þau hafa á milli handanna til þess að forgangsraða með.

Ég vil þakka kærlega fyrir frumvarpið og helst leggja áherslu á að það vantar kannski orðin sviðsmyndagreiningu eða næmnigreiningu í það. Ég myndi mæla með því.