146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

Þjóðhagsstofnun.

199. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni orðin sem hann lét falla um frumvarpið. Nú erum við hv. þingmaður bæði í fjárlaganefnd og erum að vinna nefndarálit okkar fyrir fjárlagastefnuna. Ég hef einmitt hugsað með mér þegar ég hef verið að reyna að átta mig á því hvernig sviðsmyndirnar yrðu hvaða áhætta sé undir ef þessar hagfelldu spár sem eru undir fjármálastefnunni ganga ekki eftir. Hvaða áhrif hefur það þegar vega á saman afkomumarkmið sem bundin eru í stefnunni og útgjaldaregluna sem er einnig sett inn í stefnuna?

Þetta er flókið reikningsdæmi og heilmikil sérfræðivinna sem þyrfti að vera undir slíku. Það væri afar gagnlegt fyrir þingmenn að hafa aðgang að slíkri stofnun sem Þjóðhagsstofnun væri til að draga upp þessar sviðsmyndir og meta. Ég tala nú ekki um þegar verið er að leggja til samþykktar fjármálastefnu til næstu fimm ára sem ekki má breyta nema hér verði stórkostlegt efnahagsáfall eða náttúruvá. Okkur vantar sannarlega þegar lögð eru á okkur þau stóru verkefni að meta hvort fjármálastefna sé í lagi, að samþykkja til svo langs tíma, að hafa slíka stofnun á bak við okkur. Það höfum við ekki. Þess vegna erum við þingmenn vanbúnir. Þess vegna er mjög mikilvægt að við samþykkjum þetta frumvarp og að 1. janúar 2018 geti slík stofnun tekið til starfa. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)