146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[17:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðu hennar. Mér finnst þetta mjög áhugavert þingmál sem við ræðum hér. Ég er sammála hv. þingmanni í því að ég vil bæta vinnubrögðin á Alþingi. Mér finnst mikilvægt að við nýtum tíma okkar vel og vöndum okkur við þingstörfin.

En þegar verið er að leggja til breytingar vakna eðlilega ýmsar spurningar hjá manni. Ég veit ekki, kannski er það íhaldsemi, kannski er það varkárni, kannski einhvers konar „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“, að spurningar vakna hjá mér þegar ég reyni að spegla það hvernig þetta muni virka, verði frumvarpið að lögum, samanborið við kerfið sem við höfum í dag, sem ég skal alveg taka undir að er ekkert gallalaust, með öllum þessum endurflutningi á málum.

Fastanefndirnar eru ansi sjálfstæðar í vinnu sinni. Telur hv. þingmaður það alveg augljóst að hægt sé að ákveða að fastanefndir muni alltaf leggja fram nefndarálit í málum sem til þeirra hefur verið vísað fyrir lok hvers löggjafarþings? Það sem ég er að hugsa um er hvort sú staða geti nokkuð komið upp að í stað þess að mál sofni í þingnefnd sé hætta á að mál verði tekin í gíslingu í þingnefnd, ef svo má segja, þ.e. að málum sé haldið föstum þar og að þar með sé hægt að koma í veg fyrir pólitíska umræðu um mál, sem ekki er hægt (Forseti hringir.) þegar þau eru endurflutt aftur og aftur. Það verður þá bara hægt á fjögurra ára fresti. Hvernig sér hv. þingmaður þennan flöt fyrir sér? Hann er kannski hin hliðin á þessu máli.