146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[17:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við þekkjum auðvitað öll þessa klisju um verklausa ríkisstjórn og það allt saman sem rætt hefur verið um vegna þess að fá mál berast, kannski sérstaklega eins og núna þegar lítið hefur komið fram en þetta á ekki bara við um þessa ríkisstjórn og það að hún tók seint við. Við þekkjum þetta frá fyrri árum að mál koma alltaf inn í haugum síðustu dagana sem má leggja fram mál. Oft er ekkert endilega brýn nauðsyn á að þau komi beinlínis fram á þeim tíma. Þetta er einmitt eins og verið sé að moka svolítið út bara af því að menn sögðust ætla að gera þetta.

Ég held að við höfum rekið okkur á það núna í títtnefndu frumvarpi um almannatryggingar að við þurfum að vanda lagasetninguna meira. Mér fannst ágætt það sem við sáum í morgun hjá forsætisráðuneytinu þegar fulltrúar þess komu til okkar á fundinn, verklagið sem er verið að reyna að byggja upp, reyna að fá fleiri til að koma að málum á undirbúningsstigi. Ég er sammála því að við þurfum að reyna að kynna það almennilega þannig að þingmenn og aðrir sem vilja koma að slíkum málum hafi tækifæri til þess og viti af því tækifæri. Mér finnst þessi samráðsvettvangur sem á að vera netvænn mjög áhugaverður.

Ég tek auðvitað undir það síðasta hjá hv. þingmanni, hafandi setið á síðasta kjörtímabili í allsherjar- og menntamálanefnd og fjárlaganefnd þar sem mjög mörg mál voru undir, bæði eftirlitið í fjárlaganefnd með öllum ráðuneytum og stofnunum og svo í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem var ýmist millidómstigið eða háskólarnir eða hvað það nú var, að lesa allar umsagnir og allt það. Það þarf að hafa rýmri tíma en ég vænti að við höfum t.d. nú á vordögum í þeim málum sem fram koma.