146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[17:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Ég tek undir það að það þarf hugarfarsbreytingu gagnvart mjög mörgu og hvernig við nálgumst lagasetningu. Mér finnst það hafa komið í ljós strax núna, hafandi átt þátt í því að vinna að undirbúningi lagasetningar um opinber fjármál. Ég verð að segja að það eru ákveðin vonbrigði núna þegar við stöndum frammi fyrir því að markmið þeirra laga hefur ekki alveg gengið eftir, m.a. vegna þess að ekki náðist samkomulag við sveitarfélögin sem eiga þó að bera sinn hlut í því að ná sameiginlegri niðurstöðu í afkomu hins opinbera. Það er mjög sérstakt að ríkisstjórnin geti ákveðið það í rauninni, því að það er við hana sem er verið að reyna að semja, að ætla ekki að ganga til samninga. Mér dugar það ekki að ríki og sveitarfélög hafa orðið ásátt um að verða ósammála. Það er ekki það sem lögin kveða á um. Við þekkjum auðvitað að það er hugarfarsbreyting varðandi það hvernig við komum til með að nálgast fjárlögin, vinnuna. Við höfum rekið okkur á veggi og þá þarf fólk að vera tilbúið til þess að finna einhvers staðar leið til að mætast.

Ég held að það eigi við um mjög marga lagasetningu hvert viðhorf okkar er, hvort sem það er nýtt fólk eða eldra fólk, við eigum einmitt að hugleiða það hvort við viljum ekki frekar vanda okkur, gera örlítið minna, heldur en að sópa einhverju í gegn og hafa jafnvel litla vitneskju um það hvað fer fram. Manni gefst oft á tíðum ekki tími til þess, hvort sem maður er í stærri eða minni þingflokki, ef maður situr í nefndum sem eru með mörg mál, það dugar oft ekki tíminn. Við þurfum að vanda okkur. Það er fyrst og fremst það.