146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Við verðum að ræða oftar og dýpra um loftslagsmálin hér á Alþingi, á því liggur enginn vafi. Orkuskipti í geira einkabílsins eru hafin og þau eru fjölþætt. Metan, íblöndun alkóhóls og lífdísill og fleira, þetta sést allt hér, en rafvæðingin er líka í verulegri uppsveiflu og í árslok 2016 voru rafbílar liðlega eitt þúsund. Það munar mikið um niðurfellingu gjalda í kaupverði bíla. Áfram verður að hafa þann háttinn á, líka þarf að sýna fram á að vistspor og losunarmagn bílanna frá smíði til förgunar sé léttara en vistspor og losunarmagn sambærilegra hefðbundinna bíla. Ella er til lítils unnið og erfitt að sannfæra kaupendurna.

Innlent eldsneyti skiptir líka máli. Því er gert of lágt undir höfði í áætlun um orkuskipti sem hefur verið lögð fram. Ég stefni að sérstökum umræðum um þessi orkuskipti og innlent eldsneyti við hæstv. ráðherra.

Uppsetning hleðslustöðva með ókeypis rafmagn hefur gengið of hægt og of litlu opinberu fé hefur verið varið til þeirra. Nú eru aðeins 67 millj. kr. af opinberu fé á ári í þrjú ár til ráðstöfunar. Brátt fara svo orkusölur að hyggja að beinni sölu raforkunnar á hleðslustöðvum og ríkisvaldið að hyggja að tekjumissinum þegar notkun á olíu og bensíni minnkar. Verður þá kílómetragjald lagt á rafbíla? Er rétt að stöðva sölu nýrra bíla með hefðbundnum orkugjöfum innan tiltekinna ára eins og heyrst hefur?

Ég vek athygli á þessu vegna þess að okkur er lofuð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og klukkan tikkar óvenju hratt í mannheimum frammi fyrir loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra. Að nógu er að hyggja í samgönguþætti þeirrar áætlunar bæði tekju- og gjaldamegin. Það er vert að muna að hagnaður í beinhörðum peningum er ekki alltaf eini rétti mælikvarði árangurs.

Og meðan ég man: Kolefnishlutlaust Íslands fyrir 2040 á að vera markmið okkar allra samanber stefnumið okkar Vinstri grænna.