146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Það er löng hefði á þessu þingi að draga um sæti í upphafi hvers þings. Hefðir eru góðar og fyrir þeim má bera virðingu. Ég neita því ekki að ég öfunda stundum þá þingmenn sem geta sest við hliðina á samflokksmönnum sínum og deilt upplýsingum hratt og fljótt á milli sín. Auðvitað eru til kerfi sem geta gert þetta með því að menn skrifa eitthvað á tölvuskjá, en ekkert kerfi er öruggt þannig að ég hef ákveðnar efasemdir um að nota þau.

Þetta er fyrirkomulag sem þekkist hér og ekki víða annars staðar. Ég veit að það vekur eftirtekt og stundum aðdáun í mörgum þeim löndum þar sem á þetta er minnst. Hins vegar hefur aðdáunin ekki verið meiri svo en að ég veit ekki til þess að mörg lönd hafi beinlínis tekið upp það kerfi eftir að hafa heyrt af því. Sjálfum fyndist mér umhugsunarvert hvort við ættum ekki að reyna að raða fólki hér eftir þingflokkum. Það er ekkert heilagt í þeim efnum. Í mínu gamla umhverfi, sem var sprotaumhverfi, vorum við óhrædd við að breyta hlutum. Þetta er einn af þeim hlutum sem við gætum prófað að gera í einn, tvo mánuði og sjá hvernig kæmi út. Ef það kæmi illa út væri þetta bara kallað martraðarmánuðirnir sem Pawel kom á, en að öðrum kosti gætum við séð hvort þetta væri eitthvað sem við vildum halda okkur við. Þetta gæti gefið fólki færi á að koma skilaboðum til samflokksmanna hraðar og búið til ákveðna dýnamík í salnum sem gæti verið skemmtileg út á við. (Gripið fram í: Ertu að kvarta yfir sessunaut þínum?) Ég tek það fram að ég kann mjög vel að meta sessunaut minn. Hann er auðvitað svo oft hérna uppi að ég fæ [Hlátur í þingsal.] ekki mikið að ræða við hann.