146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að eiga orðastað við hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson um útgjaldareglu fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Í óundirbúnum fyrirspurnum nýlega hafnaði hæstv. fjármálaráðherra því að nýta eftirfarandi leiðir til tekjuöflunar: Brattari þrepaskatt, hátekjuskatt, auðlegðarskatt og stigvaxandi fjármagnstekjuskatt.

Fimm ára fjármálastefna ríkisstjórnarinnar kveður á um að útgjöld verði ekki umfram 41,5% af vergri landsframleiðslu. Í dag eru útgjöldin 41%. Með öðrum orðum, verði hagvöxtur hér ekki áfram í hæstu hæðum mun ríkisstjórnin ekki geta bætt við nauðsynlegu fjármagni í heilbrigðiskerfið, menntamálin eða ráðist í stórfellda innviðauppbyggingu sem allir flokkar lofuðu fyrir kosningar, líka ríkisstjórnarflokkarnir.

Auðvitað á að nota góðærið til að tryggja félagslegan stöðugleika og búa okkur undir mögur ár sem munu óhjákvæmilega koma. Nú stefnir hins vegar í að sameign okkar drabbist áfram niður. Hv. stjórnarþingmenn sem hafa mótmælt niðurskurði samgönguráðherra til vegamála og lýst áhyggjum af lítilli innviðauppbyggingu í ræðustól mega gjarnan hafa eitt í huga. Hér er verið að senda þessar köldu kveðjur heim í hérað. Óljóst er hvort svigrúm verður til að bæta veikburða heilbrigðiskerfi eða snúa vörn í sókn í menntamálum. Þá munu vegirnir okkar halda áfram að molna undan fótum okkar.

Þá er rétt að minna hina sömu þingmenn á til hvers útgjaldareglan leiðir ef niðursveifla verður í efnahagslífinu og fjármálaráðherra þverskallast við að sækja tekjur til þeirra sem eru mjög vel aflögufærir. Þá þarf að grípa til niðurskurðar. Afleiðingar þess geta allir gert sér í hugarlund.

Spurningin er: Deilir hv. þingmaður áhyggjum mínum af afleiðingum reglunnar að ekki verði svigrúm fyrir nauðsynlegar samgöngubætur, m.a. flughlað á Akureyri og Berufjarðarbotn? Nú hefur hv. þingmaður talað fyrir þessari uppbyggingu. Vill (Forseti hringir.) hann breyta reglunni? Ef hann vill það ekki hvernig hyggst hann sækja peninga í þessar framkvæmdir?